Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þarf að hugsa skimun upp á nýtt, segir landlæknir

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Alma Möller landlæknir segir að hugsa þurfi landamæraskimun upp á nýtt eftir að Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar tilkynnti í opnu bréfi til forsætisráðherra í dag að fyrirtækið myndi hætta skimun 13. júlí. Kári segir líka í bréfinu að Íslensk erfðagreining ætli að hætta samskiptum við landlækni og sóttvarnalækni frá og með deginum í dag.

Byrjað að skipuleggja

„Já, þetta er auðvitað ný staða sem upp er komin og ljóst að það þarf að hugsa það upp á nýtt.,“ segi Alma Möller landlæknir.

„Það er auðvitað byrjað á því hérna og verður tilkynnt þegar lengra er komið. En ég vil taka fram að framlag Íslenskrar erfðagreiningar hefur verið ómetanlegt í gegnum allan faraldurinn og auðvitað þetta verkefni. Og samskipti við landlækni og sóttvarnalækni verið góð og ég vil nota tækifærið og þakka Íslenskri erfðagreiningu og Kára Stefánssyni kærlega fyrir samstarfið.“

Er hægt að skima svona marga og undirbúa það á svona stuttum tíma?

„Það bara verður að koma í ljós og eins og ég segi við erum byrjuð að svona hugsa plan B og það verður auðvitað bara haldið áfram með það á morgun þ.a. það er of snemmt að segja.“

ÍE miklu afkastameiri en Landspítalinn

Íslensk erfðagreining greindi 1941 sýni af landamærunum í gær, sunnudag. Afkasta veirufræðideildar Landspítalans er ekki nándar nærri eins mikil og Íslenskrar erfðagreiningar. 

Vill faraldsfræðistofnun í húsnæði ÍE til að byrja með

Í bréfi Kára 1. júlí til ríkisstjórnarinnar leggur hann til að sett verði á laggirnar Faraldsfræðistofnun Íslands og býðst til að hýsa stofnunina til að byrja með í húsnæði erfðagreiningar við Sturlugötu. 

Í svari forsætisráðherra 4. júlí við því bréfi segir að tillaga Kára verði tekin til skoðunar og að verkefnisstjóri verði ráðin undir sóttvarnalækni og látin meta hvernig efla megi innviði heilbrigðiskerfisins með hliðsjón af tillögunni. 

Í opna bréfinu í dag segir Kári að forsætisráðherra þyki greinilega þetta vandamál eins brátt og starfsfólki Íslenskrar erfðagreiningar. Og að forsætisráðherra gangi að því sem vísu að þau ætli að halda áfram skimun án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut með að gera hvernig að henni sé staðið. Það sem meira sé að forsætisráðherra liggi ekkert á að setja saman apparat til að taka við af erfðagreiningu.

Ráðherrar sýna starfsfólki virðingarleysi

Jafnfram segir það að starfsmönnum Íslenskrar erfðagreiningar þyki framkoma forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra markast af virðingarleysi fyrir framlagi starfsmanna og því verkefni sem þau hafi tekið að sér í faraldrinum. 

Fyrirtækið hafa skimað eftir kórónuveirunni hjá 72500 manns en Landspítalinn 15400. Nú sé starfsfólkið búið að leggja sitt af mörkum og tími til komin að þau fari að sinna dagvinnu sinni. Því verði frá deginum í dag öllum samskiptum við sóttvarnalækni og landlækni hætt og síðustu sýni sem erfðagreining afgreiði verði þau sem berist 13. júlí.