Sölvi harmar framgöngu sína eftir rauða spjaldið

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Sölvi harmar framgöngu sína eftir rauða spjaldið

06.07.2020 - 15:03
Knattspyrnudeild Víkings og Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði liðsins, sendu í dag frá sér yfirlýsingar vegna viðureignar KR og Víkings í Pepsi Max-deild karla á laugardaginn. Þrír leikmenn Víkings fengu beint rautt spjald í leiknum en Víkingar vilja meina að ekkert þeirra hafi átt rétt á sér.

Helgi Mikael  Jónasson dæmdi leikinn og rak Kára Árnason, Sölva Geir Ottesen og Halldór Smára Sigurðsson alla af velli. KR vann leikinn 2-0. Í yfirlýsingu Víkings segir meðal annars: 

„Knattspyrnudeild Víkings lýsir yfir furðu sinni með framgöngu dómara í leik KR og Víkings á laugardag og skorar á dómaranefnd KSÍ að fara rækilega yfir málin. Það er ljóst að félagið verður án þriggja sterkra leikmanna á miðvikudag í leiknum gegn Val þar sem allir leikmennirnir eru á leið í leikbann. Það er skoðun okkar að dómarinn hafi gert mistök þegar hann lyfti rauða spjaldinu í öllum tilfellum. Mistök sem geta reynst félaginu ákaflega dýr."

Óásættanleg framkoma Sölva Geirs

Víkingar ræða einnig framkomu Sölva Geirs eftir að hann fékk að líta rauða spjaldið. Sölva var mjög heitt í hamsi og sagði fjórða dómara leiksins til syndanna. 

„Að sama skapi teljum við framkomu Sölva Geirs Ottesen í kjölfar rauða spjaldsins sem hann fékk í leiknum óásættanlega,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni. Sölvi segist sjálfur sjá eftir viðbrögðum sínum. 

„Ég harma framgöngu mína eftir að hafa fengið brottvísun í leik KR og Víkings síðastliðið laugardagskvöld. Í hita leiksins snarreiddist ég þar sem ég taldi mig órétti beittan eftir að leikmaður KR ýtti mér svo ég féll á annan leikmann liðsins. Dómari leiksins mat það sem viljaverk að vinstri handleggur minn hafi lent í anditi leikmanns KR sem lá á vellinum. Ég átti hins vegar ekkert sökótt við leikmanninn, ásetningurinn var enginn og ég var aðeins að reyna að verjast falli," segir Sölvi og bætir við.

„Þrátt fyrir öll málsatvik á leikmaður með mína reynslu, og fyrirliði Víkings, hins vegar að vita betur og viðbrögð mín í hita leiksins voru mér, liðsfélögum og Knattspyrnufélagi Víking ekki til sóma."

Víkingur tekur á móti Val í Fossvogi á miðvikudaginn og að öllu óbreyttu verða þrír miðverðir og lykilmenn liðsins, Kári, Sölvi og Halldóri, í leikbanni á móti Valsmönnum.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Þriðja rauða spjaldið óþarft

Fótbolti

Hyggst áfrýja til KSÍ

Fótbolti

Þrír Víkingar fuku af velli í sigri KR