Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sársaukafullt en nauðsynlegt að loka fangelsinu

06.07.2020 - 19:22
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Forseti bæjarstjórnar á Akureyri gagnrýnir að ríkið hafi ekki haft samráð við bæjaryfirvöld áður en ákveðið var að loka fangelsinu þar. Fangelsismálastjóri segir þetta sársaukafulla en nauðsynlega aðgerð.

Á Akureyri hefur fangelsi verið starfrækt í 42 ár. Í vor voru fangar fluttir þaðan í önnur fangelsi í sparnaðarskyni. Gert var ráð fyrir að starfsemi hæfist að nýju í september en nú er ljóst að af því verður ekki.

„Þetta er nauðsynleg aðgerð. Við getum með þessu móti rekið stærra fangelsi með betri afköstum. Það fækkar vissulega um átta til tíu fanga með lokun þarna fyrir norðan en við getum fjölgað mun meira á öðrum stöðum fyrir sama fjármagn,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri. Það kostar um 100 milljónir að reka fangelsið á Akureyri að ársgrundvelli. 

Gagnrýnir skort á samráði

Halla Björk Reynisdóttir forstjóri bæjarstjórnar segir þetta vonbrigði. „Fangar eiga rétt á því að afplána sem næst heimili sínu að þá skuli fangelsi í stærsta þéttbýlisstað fyrir utan höfuðborgarsvæðið vera lokað. Það er líka ámælisvert á hendi ríkisins að vera ekki í samtali eða samráði við okkur.“

Stefna á 90-95% nýtingu fangelsa

638 eru á biðlista eftir afplánun í ár. Dómsmálaráðuneytið telur að fjöldi fyrninga geti orðið 30 á þessu ári. Vegna fjárskorts voru 44 laus afplánunarrými í byrjun júní af hundrað áttatíu og einu. En er þá hægt að fullnýta þau? „Það fer auðvitað eftir því hvernig fjárheimildir munu þróast til þessa málaflokks. Að öllu óbreyttu ættum við að geta keyrt stóru fangelsin á góðum afköstum og það er talað um að vera með 90-95% nýtingu í fangelsinu.“ segir Páll.

Lögreglan fái húsnæðið

Tólf ár eru síðan fangelsið var endurbyggt í húsnæði lögreglunnar á Akureyri. Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu er sagt að húsið geti nýst til að mæta húsnæðisvanda lögreglunnar þar. Fimm fastráðnum starfsmönnum fangelsisins verður boðin vinna í öðrum fangelsum. Þeir eiga rétt á biðlaunum í allt að 12 mánuði. „Þetta er sársaukafull aðgerð og það er vont að sjá eftir góðu samstarfsfólki,“ segir Páll jafnframt.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV