Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rétt rúm 5% Spánverja eru með mótefni gegn COVID-19

06.07.2020 - 22:33
Erlent · COVID-19 · Spánn · Evrópa
Mynd: Geir Ólafsson / RÚV
Aðeins 5,2% Spánverja eru með mótefni fyrir COVID-19, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem heilbrigðisyfirvöld á Spáni kynntu í dag.

Um tíma þegar þungamiðja faraldursins var í Evrópu lék faraldurinn Spánverja grátt. Staðfest kórónuveirusmit eru ríflega 250 þúsund og yfir 28 þúsund eru látin úr sjúkdómnum. 

Nærri 70.000 sýni tekin

Rannsóknin stóð yfir í átta vikur. Hún var framkvæmd af vísindafólki opinberrar stofnunar sem segir hana einstaka á heimsvísu. „Landsmæling á mótefni gerir okkur kleift að reikna út magn mótefna eftir mjög stóru aldursbili, allt frá nýburum til sjúklinga á tíræðisaldri. Þetta er ein fárra rannsókna í heiminum þar sem þetta er mögulegt,“ segir Raquel Yotti yfirmaður Carlos III stofnunarinnar. 

Blóðsýni voru tekin úr nærri sjötíu þúsund manns í þremur hópum. „Í þriðju lotu höfum við fundið að almennt algengi er mjög svipað, raunar nákvæmlega eins og niðurstaða annarrar lotunnar, það er að 5,2% íbúa Spánar hafa mótefni gegn COVID-19,“ segir Marina Pollán forstjóri Faraldsstofnunar Spánar. 

Um 10% heilbrigðisstarfsfólks smitaðist

Eðli málsins samkvæmt er munur milli héraða hversu stórt hlutfall fólks mælist með mótefni. Minnst er það 1,2% en mest 14,4%. Þá leiðir rannsóknin í ljós að smit á meðal fólks í framlínustörfum eru meira en meðaltalið. Þannig greindust mótefni í 7% starfsfólks á hjúkrunarheimilum og um 10% þeirra sem starfa í heilbrigðiskerfinu virðast hafa smitast af veirunni. 

Íslensk erfðagreining kynnti í lok maí niðurstöðu úr sínum mótefnamælingum hér á landi.  Þar kom í ljós að utan þeirra sem þá voru með staðfesta sýkingu hafði 0,9% þjóðarinnar myndað mótefni gegn COVID-19.