Óttast að spítalar í Texas verði yfirfullir

06.07.2020 - 19:59
COVID-19 breiðist hratt út í Texas-ríki í Bandaríkjunum. Þó eru margir sem skeyta engu um skyldu til að bera andlitsgrímur og um samskiptafjarlægð. Læknar hafa lýst yfir áhyggjum af því að spítalar í Texas verði yfirfullir ef fram heldur sem horfir. Leggja þurfti 8.000 manns inn á spítala í gær vegna farsóttarinnar.

Sjá einnig: Öllum börum lokað í Texas

„Spáin lítur eins illa út og þessar nýjustu tölur. Þetta er bara byrjunin. Smit eiga eftir að tvöfaldast á næstu tveimur vikum og tvöfaldast aftur vikuna þar á eftir,“ segir Peter Hotez, smitsjúkdómalæknir í Texas. Læknar og yfirvöld hafa lýst yfir áhyggjum af því að spítalar verði yfirfullir ef ekki tekst að stemma stigu við útbreiðslunni sem fyrst. Steve Adler, borgarstjóri Austin í Texas, hefur líka lýst yfir áhyggjum af því að brátt verði ekki hægt að taka við fleirum á spítölum. 

Greind smit í Texas eru orðin 195.239 og dauðsföll af völdum farsóttarinnar eru 2.637. 

Ríkisstjóri Texas, Greg Abbott, hefur fyrirskipað að fólk gangi með andlitsgrímur á almannafæri, víðast hvar í ríkinu. Fólk sem brýtur gegn þessu í fyrsta sinn fær áminningu en við næsta brot fær fólk sekt upp á 250 Bandaríkjadali, sem jafngildir um 35.000 íslenskum krónum. Í myndbandinu sem fylgir fréttinni má sjá viðtöl við fólk á kúrekasýningu sem er alfarið á móti því að ganga með grímu. „Enginn á að geta sagt mér hvernig ég á að klæða mig,“ sagði kona á sýningunni. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi