Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ocean Viking liggur við akkeri undan Sikiley

06.07.2020 - 11:56
epa08527229 A handout photo made available by the press office of SOS Mediterranee, shows Italian medical team consisting of a doctor and a cultural mediator, boarded on Ocean Viking ship at the Mediterranean Sea, 04 July 2020. The ship is in international waters of Mediterranean Sea with 180 rescued migrants on board.  SOS Mediterranee for days asks to be able to disembark the migrants after declaring state of emergency due to the precarious conditions of the rescued people.  EPA-EFE/FLAVIO GASPERINI / SOS MEDITERRANEE / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Um borð í Ocean Viking 4. júlí. Mynd: EPA-EFE - SOS MEDITERRANEE
Björgunarskipið Ocean Viking liggur við akkeri undan Sikiley á Ítalíu og áhöfnin bíður leyfis til að halda til hafnar. Hundrað og áttatíu flóttamenn eru um borð og lýsti áhöfn skipsins yfir neyðarástandi fyrir helgi.

Sjá einnig: Björgunarskip lýsir yfir neyðarástandi um borð

Fólkinu var bjargað af fjórum lekum bátum á Miðjarðarhafi en björgunarskipið hafði hvorki fengið heimild til að leggjast að bryggju á Ítalíu eða Möltu. Ítölsk stjórnvöld tilkynntu í gær að heimilt yrði að sigla skipinu til hafnar í Sikiley og að fólkið færi þar í fjórtán daga sóttkví vegna COVID-19. Sóttkvíin verður um borð í öðru skipi á vegum ítalska ríkisins. Útgerð björgunarskipsins, SOS Mediterranee, greinir frá því að skipið hafi síðan í morgun legið við akkeri undan Sikiley og að áhöfnin bíði fyrirmæla frá hafnaryfirvöldum. Samkvæmt upplýsingum frá útgerðinni er skipstjórinn íslenskur. 

Flóttafólkið hafði lagt í hann frá Líbýu en er ekki allt þaðan. Þau hafa verið um borð í björgunarskipinu í um eina viku. Áhöfn skipsins lýsti yfir neyðarástandi á föstudag. Mjög þröngt er um borð og aðstæður erfiðar. Sex hafa reynt að svipta sig lífi og áflog brutust út. Í hópnum eru tuttugu og fimm börn, flest ein á ferð.

Yfir 100.000 flóttamenn hafa reynt að komast yfir Miðjarðarhafið síðustu tólf mánuði. 1.200 hafa drukknað á leiðinni á þessum tólf mánuðum.