Miklar tafir eru á umferð um Kjalarnes vegna malbikunarframkvæmda. Umferðinni er handstýrt um eina akrein og það geta liðið um það bil 20 mínútur á milli þess sem skipt er um aksturstefnu.
Vegagerðin segir frá þessu í tilkynningu. Vegfarendum er bent á hjáleið um Mosfellsheiði, Kjósarskarð og Hvalfjörð.
Viðbót klukkan 17:37 - Löng röð hefur myndast í vesturátt á Kjalarnesi. Vegfarandi sem var kominn í gegnum Grundahverfið hafði beðið í langri bílaröð í tæpa klukkustund.
Verið er að malbika aðra akreinina í dag og hin verður malbikuð á morgun. Þá má einnig gera ráð fyrir töfum.
Banaslys varð á þessum kafla í síðustu viku þegar mótorhjól rann á nýlögðu og sleipu malbikinu og hafnaði framan á húsbíl sem kom úr gagnstæðri átt. Tvennt lést í slysinu. Vegna slyssins brást Vegagerðin við og ákvað að fræsa nýlagða malbikið upp og leggja nýtt.
Kaflinn sem verið er að malbika aftur er frá Grundarhverfi á Kjalarnesi og vestur að brúnni yfir Blikdalsá.