Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur fallist á tillögu Fangelsismálastofnunar um að loka fangelsinu á Akureyri. Það er í samræmi við tillögu starfshóps ráðherra um aðgerðir til að stytta boðunarlista fyrir afplánun refsinga.
Með því að loka fangelsinu á Akureyri á að nýta betur en hingað til það fjármagn sem hefur farið í rekstur fangelsa, segir í fréttatilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins. Þar segir að ekki hafi verið nægt fjármagn til að fullnýta þau úrræði til afplánunar sem eru fyrir hendi eftir opnun fangelsisins á Hólmsheiði. Kostnaður á hvern fanga er talsvert meiri á Akureyri en Hólmsheiði og Litla-Hrauni og meirihluti fanga á Akureyri er af höfuðborgarsvæðinu. Alla jafna hafa verið átta til tíu fangar á Akureyri hverju sinni.
Fimm starfsmenn eru fastráðnir í fangelsinu á Akureyri og verður þeim boðin vinna í öðrum fangelsum.