Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglufólki í sóttkví meinað um yfirvinnugreiðslur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglumenn sem þurft hafa að fara í sóttkví vegna gruns um Covid-19 smit fá ekki greidda yfirvinnu á meðan. BSRB segir óviðunandi að starfsfólk í framlínustörfum sem gæti smitast af lífshættulegum sjúkdómi, fái ekki borgað fyrir þann tíma sem verja þarf í sóttkví.

Að sögn Snorra Magnússonar formanns Landssambands lögreglumanna fær lögreglufólk greitt fyrir þær vaktir sem það hefði átt að standa eins og það væri veikt heima.

Tilefni bréfsins er að þegar úrvinnslusóttkví svokölluð lendir á frídegi lögreglufólks fái það ekki greidda yfirvinnu sem ella hefði átt að vera borgað fyrir. Ekki sé um veikindi að ræða í sjálfu sér.

Sóttkví erfið lögreglufólki

Lögreglumenn í þessari stöðu þurfi að dvelja nokkra daga fjarri fjölskyldu og vinum og missi jafnvel af mikilvægum atburðum í sínu persónulega lífi.

Tveir lögreglumenn hafa þurft að dvelja í sóttkví eftir afskipti af fólki sem talið var smitað af Covid-19. Í báðum tilvikum er afstaða yfirmanna þeirra sú að þeir eigi ekki rétt til greiðslna á meðan né fái þeir aukinn frítökurétt vegna vaktafrídaga sem þeir eiga að fá á meðan þeir eru í sóttkvínni. Þeir frídagar frestast aðeins þar til lögreglumennirnir eru lausir úr sóttkví.

BSRB hefur mótmælt þessu harðlega enda standi lögreglufólk í framlínu í öllum skilningi. Það sé yfirleitt fyrst á vettvang og hafi ekki val um hvort það fer í útkall, viti ekki hvað bíður í hverju tilfelli og standi berskjaldað frammi fyrir margvíslegum ógnum. Smitsjúkdómum þar á meðal.

Sambandið hefur sent öllum lögreglustjórum landsins bréf þar sem farið er fram á að lögreglumenn í sóttkví fái greidd yfirvinnulaun fyrir tíma sinn í sóttkví utan skilgreindra vakta. Jafnramt að vaktafrí frestist þar til þeir eru lausir úr henni.

Hvorki Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi né Úlfar Lúðvíksson formaður Lögreglustjórafélagsins vildu tjá sig um málið efnislega enda höfðu þeir ekki fengið bréfið í hendur. Úlfar sagði lögreglustjóra fara yfir efni þess og skoða málið yfirvegað.