Ljósleiðaravæðing í Vopnafirði á ís vegna boðaðra kvaða

06.07.2020 - 10:01
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Míla hefur dregið sig úr eða seinkað ljósleiðaraverkefnum á nokkrum stöðum, meðal annars á Vopnafirði vegna kvaða sem áformað er að leggja á fyrirtækið. Þær myndu banna Mílu að rukka hærri mánaðargjöld þar sem dýrara er að koma ljósleiðara í hús.

Í Vopnafirði hefur ljósleiðari verið lagður í dreifbýli en ekki í þorpinu sjálfu. Sveitarfélagið lagði í dreifbýlið með ríkisstyrk en vill koma ljósleiðara í þorpið líka en þar eru engir styrkir í boði. Sveitarfélagið bauð út leigu á sveitaleiðaranum og um leið lagningu í þéttbýlinu sem enginn bauð í. Það kom á óvart því Míla var með staðinn á áætlun. Fyrirtækið er hins vegar markaðsráðandi og þarf því að lúta ákveðnum kvöðum. Vandamálið er að Póst- og fjarskiptastofnun er að endurskoða þær og hefur boðað hertar og meira íþyngjandi kvaðir, samkvæmt drögum að markaðsgreiningu.

Jöfnunarkostnaður bitni á samkeppnihæfni Mílu á höfðuborgarsvæðinu

„Við höfðum áform um að leggja ljósleiðara til heimila á Vopnafirði eins og í öðrum þéttbýlisstöðum úti á landi. Það er langtímaverkefni. Hins vegar hafa þessi drög að markaðsgreiningu veruleg áhrif á það þannig að við þurfum að endurhugsa það verkefni og hvort einhver annar þarf að gera það. Hingað til höfum við getað innheimt hærra gjald úti á landi þar sem uppbygging er dýrari. En í þessu breytta umhverfi þá á að innleiða svokölluð kostnaðargreind jafnaðarverð fyrir allt landið. Þá í raun og veru getum við að óbreyttu ekki lagt út í svona uppbyggingu þar sem hún er dýrari heldur en á höfuðborgarsvæðinu þar sem það myndi einfaldlega skaða samkeppnishæfni okkar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu.

Ekki útilokað að taka upp stofngjöld

Míla á fyrir koparkerfi í öll hús á Vopnafirði en þyrfti líklega að grafa skurð úr stofnlögnum til að koma ljósleiðara alla leið heim í hús. Jón Ríkharð segir að Míla hafi dregið sig út úr fleiri verkefnum: í dreifbýli í Húnaþingi vestra og Norðurþingi og þá séu kaup á kerfi í Hvalfjarðarsveit í uppnámi. Fyrirtækið geti ekki búið við óvissu um forsendur og hvernig miklum stofnkostnaði verði náð til baka á löngum tíma.

Aðspurður um hvort ekki sé til lausn á málinu eins og til dæmis að Míla fari út í að innheimta tengigjöld eða stofngjöld á stöðum eins og Vopnafirði til að dekka stofnkostnað segir hann:

„Það er möguleiki að við förum þá leið. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða hvort að sú leið er fær. Eins einhvers konar möguleg aðkoma annarra, til dæmis opinberra aðila, sveitarfélaganna eða ríkisins með einhverjum hætti. Þetta er eitthvað sem á eftir að skýrast,“ segir Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi