Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kostnaður aðstandenda við útfarir hækkar

06.07.2020 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot RÚV - RÚV
Útfararkostnaður hækkar eftir að kirkjugarðsstjórn hættir að bera kostnað af þjónustu presta. Það á við um kistulagningar og jarðsetningu.

Héðan í frá verður greiðsla fyrir útfarir hluti af aukakostnaði við prestsverk. Að sögn Óskars Hafsteins Óskarssonar kjaramálafulltrúa Prestafélagsins liggur endanleg ákvörðun um aðferð við innheimtu gjaldsins hjá Kirkjuþingi.

Aukaverk presta eru auk útfara skírn, ferming og hjónavígsla. Dómsmálaráðuneytið gefur reglulega út gjaldskrá fyrir þau verk. Að sögn Óskars standa prestar frammi fyrir mikilli kjararýrnun verði hætt að greiða sérstaklega fyrir þessi aukaverk.

Hann segir jafnframt að margir séu þeirrar skoðunar að þær eigi að vera hluti af launakjörum presta. Þessi breyting er hluti af samkomulagi sem gert var um síðustu áramót, þar sem gert er ráð fyrir árlegri eingreiðslu til þjóðkirkjunnar. Prestafélagið kom ekki að þeim samningi.

Óskar segir Prestafélagið hafa fullan hug á að taka þátt í nánari útfærslu á innheimtu greiðslunnar. Prestar munu þurfa að innheimta sjálfir fyrir þjónustu við útfarir fram að Kirkjuþingi sem hefur verið frestað fram á haust vegna Covid-19. Vera kunni að einhverjum prestum þyki erfitt að rukka beint fyrir þjónustu sína.

Kirkjuþingi ber að sögn Óskars að axla ábyrgð á hvernig innheimtu verði háttað og nefnir ýmsar leiðir. Þjóðkirkjan gæti gert það eða útfararþjónustur enda heyri það til undantekninga að ekki sé leitað þjónustu þeirra við andlát.

Óskar kveðst hafa fulla trú á að sameiginleg lausn muni finnast á greiðslum til presta fyrir aukaverk þeirra.