Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kári: Við erum hætt skimun í eitt skipti fyrir öll

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Íslensk erfðagreining hættir að greina sýni úr landamæraskimun eftir viku. Kári Stefánsson forstjóri segir Landspítalanum ekki vorkunn að setja upp rannsóknastofu á sjö dögum. Hann segir samskiptin við stjórnvöld hafa verið dálítið skringileg og litið á starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar sem boðflennur í verkefninu. 

Viljum losna undan þessu oki sem fyrst

Kári Stefánsson tilkynnti ákvörðun Íslenskrar erfðagreiningar í opnu bréfi til forsætisráðherra í dag og birti jafnframt bréf sitt til ríkisstjórnarinnar 1. júlí og svarbréf forsætisráðherra á laugardaginn. Hann lagði til að sett yrði á laggirnar Faraldsfræðistofnun Íslands og bauð fram húsnæði erfðagreiningar til að byrja með. Forsætisráðherra svaraði að verkefnisstjóra hjá sóttvarnalækni yrði gert að skoða tillöguna og svara fyrir 15. september. Kári segir erfðagreiningu hafa tekið að sér greiningu sýna á landamærum til að byrja með en hann hafi ekki séð tilburði til þess hjá stjórnvöldum um að fá annan til að taka við. 

„Það svar var ekki í nokkru samræmi við það sem ég lít svo á að séu þarfir þessa fyrirtækis sem er að losna undan þessu oki sem þessi skimun er sem allra fyrst,“ segir Kári.

Litið á okkur sem boðflennur

Íslensk erfðagreining hefur greint 72500 sýni en Landspítalinn 15 þúsund. Kári segir erfðagreiningu hafa gert meira en að greina sýni, því það hefur raðgreint veiruna, skipulagt sýnatöku og sent starfsmenn út á land til að taka sýni. 

„En engu að síður hafa samskipti okkar við stjórnvöld verið dálítið skringileg eins og við séum boðflennur í þessu verki. Og sú staðreynd gerir það að verkum að það er miklu auðveldara að hætta þessu núna. Við erum ekki að fara út úr samvinnu sem hefur verið með flæði.“

Landspítalanum engin vorkunn

Hann segist ekki hafa sérstakar áhyggjur af því sem komi til með að gerast næst því það hafi tekið Íslenska erfðagreiningu fimm daga að koma upp rannsóknarstofu til að greina sýnin. 

„Þannig að Landspítalanum ætti ekki að vera vorkunn að koma þessu upp á sjö dögum sem að við höfum gefið yfirvöldum til þess að koma þessu annað.“

Bakkar ekki með ákvörðun

Nú ert þetta ekki í fyrsta sinn sem þú hættir samstarfi við stjórnvöld út af þessu máli, þessu verkefni, skimun, muntu bakka í þetta skipti líka ef þess verður óskað?

„Nei.“

Og líturðu svo á að þessu máli sé bara lokið?

„Þessu máli er lokið í eitt skipti fyrir öll.“