Bækur hverfa úr hillum bókasafna Hong Kong

06.07.2020 - 05:51
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
epa08520568 Riot police arrive to disperse protesters during a rally against a new national security law on the 23rd anniversary of the establishment of the Hong Kong Special Administrative Region in Hong Kong, China, 01 July 2020. The new national security law, that Beijing has tailor-made for Hong Kong, prohibits acts of secession, subversion, terrorism and collusion with foreign forces to endanger national security.  EPA-EFE/MIGUEL CANDELA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bækur ritaðar af lýðræðissinnum hafa verið teknar úr hillum bókasafna í Hong Kong. Joshua Wong, einn helsti talsmaður ungra lýðræðissinna, heldur að þær hafi verið fjarlægðar vegna nýju öryggislaganna sem tóku gildi í Hong Kong um mánaðamótin. Wong, sem á eina þeirra bóka sem hvarf úr bókasafnskerfinu, skrifaði á Facebook að öryggislögin séu í grunninn tæki til þess að glæpavæða tjáningu.

AFP fréttastofan hafði samband við menningarráð Hong Kong, sem rekur bókasöfn borgarinnar. Þar fengust þau svör að bækurnar hafi verið fjarlægðar á meðan það væri athugað hvort innihald þeirra stangist á við nýju öryggislögin. 

Grafið undan sjálfstæði dómstóla Hong Kong

Lögin voru samþykkt á kínverska ríkisþinginu í síðasta mánuði og innleidd í Hong Kong á þriðjudag. Gagnrýnendur segja þau grafa undan sjálfstæði dómstóla í Hong Kong, og skerða réttindi íbúa héraðsins. Hong Kong hefur verið sjálfsstjórnarhérað allt síðan Bretar afhentu Kínverjum það að nýju árið 1997. Þeir hafa búið við meiri réttindi og frelsi en aðrir Kínverjar síðan þá. Stór hluti íbúa hefur krafist meira lýðræðis í héraðinu, og meiri sjálfsstjórnar. Mótmæli síðustu mánaða eru kveikjan að nýju öryggislögum stjórnvalda í Peking, sem þau segja beinast að mjög litlum hluta íbúa, og eigi ekki að skerða réttindi Hong Kong.

Krafa um þjóðræknari kennslu

Lögin kveða á um bann við áróðri um aðskilnað Hong Kong frá Kína, niðurrifsstarfsemi, hryðjuverkum og samvinnu við erlend öfl. Jafnframt ætla Kínverjar að hafa dómsvald í einhverjum málum, en hingað til hafa yfirvöld í Hong Kong séð um sín dómsmál sjálf. 

Sams konar öryggislög eru oft notuð til þess að kveða niður óánægjuraddir á meginlandi Kína. Nýju lögin og hvarf bókanna úr hillum safna vekja upp spurningar um hvort frelsi íbúa til menntunar verði ennþá hið sama í Hong Kong. Nokkrir af fremstu háskólum Asíu eru í héraðinu, og er þar jafnan fjallað um málefni sem eru illa séð á meginlandinu. Stjórnvöld í Peking hafa ekki falið þá ósk sína að kennsla í Hong Kong verði þjóðræknari, sérstaklega eftir hörð mótmæli almennings í héraðinu undanfarið ár. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi