330 möstur og þúsund tonn af vír í Kröflulínu 3

06.07.2020 - 14:12
Kröflulína 3
 Mynd: Landsnet - Stæða úr Kröflulínu 3
Kunnáttumenn frá Bosníu reisa nú 4 til 6 háspennumöstur á dag í nýrri byggðalínu á milli Norður- og Austurlands. Í Kröflulínu þrjú verða 330 stálmöstur og þau halda uppi meira en þúsund tonnum af háspennuvír á milli Kröflu og Fljótsdalsstöðvar.

Kröflulína þrjú liggur að mestu samhliða eldri byggðalínu sem hangir neðan í tréstaurum. Nýja línan getur flutt meiri orku, minnkar líkur á bilunum, rafmagnstruflunum og minni orka tapast í dreifikerfinu. Byggja þarf upp línuveg og stæði fyrir möstur og stendur slík jarðvinna yfir á þremur svæðum, við Kröflu, norðan og austan megin í Jökuldal og einnig við bæina Hákonarstaði og Klaustursel.

Byrja að hengja vírinn upp í næsta mánuði

30 manna lið frá Bosníu reisir stálmöstrin og von er á ellefu til viðbótar í svokallaða strengingu; þegar byrjað verður að hengja vírinn upp í næsta mánuði. Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að verkið hafi verið boðið út á Evrópska efnahagsvæðinu en ekkert fyrirtæki innanlands ráði við verk sem þetta. „Möstrin í Kröflulínu koma frá Tyrklandi og við erum nú þegar búin að setja saman 137 möstur. Þeir byrjuðu að reisa þau í síðustu viku og það gengur mjög vel. Við erum með verktakafyrirtæki sem kemur frá Bosníu; Elnos heita þeir. Þeir eru sérhæfðir í þessu og hafa verið að vinna með okkur að stórum verkefnum eins og í Þeistareykjum og Bakka. Við höfum góða reynslu af þeim og þeir eru að reisa fjögur til sex möstur á dag og núna fyrir helgina var búið að reisa 43 möstur,“ segir Steinunn.

Sterkari og þyngri vír notaður þar sem hætta er á ísingu og vindálagi

Línuleiðin á milli Kröflu og Fljótsdalsstöðvar er um 122 kílómetrar. Leiðararnir eru þrír og í línuna fer 171 kílómetri af álblönduleiðurum sem vega 430 tonn. Þar sem meiri hætta er á ísingu og vindálagi er notaður álblönduleiðari með stálkjarna sem er þyngri. 219 kílómetra þarf af slíkum vír og vegur hann 624 tonn. „Við stefnum að því að klára fyrir veturinn og við stefnum enn ótrauð á að línan verði tekin í rekstur í lok árs,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi