Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tvær konur sluppu naumlega undan grjótskriðu í Esjunni

05.07.2020 - 14:50
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Wikimedia Commons
Á ellefta tímanum í morgun sluppu tvær konur naumlega undan stórri grjótskriðu sem féll í Esjunni. Önnur þeirra hlaut smávægileg meiðsl. Lögregla metur nú hvort setja eigi varúðarmerkingar á svæðið.

Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að verið sé að skoða aðstæður á svæðinu. Hún segist ekki vita til þess að fleirum en konunum tveimur hafi verið hætta búin af skriðunni. Spurð hvort setja eigi upp merkingar til að að vara fólk við frekari skriðuföllum segir Elín að það hafi ekki verið ákveðið að svo stöddu.

„En við munum fylgjast vel með aðstæðum,“ segir hún.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að skriðan hafi fallið á gönguleiðina sem er austar í Esjunni, sem er lengri leiðin upp á fjallið, austan við Þverfellshornið, ofarlega ofan við Mógilsá. Fólk sem hyggi á útivist á Esjunni ætti að hafa sérstakan vara á sér og fara gætilega því enn gæti verið laust grjót á svæðinu.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir