Það eina sem fer í gegnum hugann er „ekki deyja“

Mynd: Valgeir Helgi Bergþórsson / Aðsend

Það eina sem fer í gegnum hugann er „ekki deyja“

05.07.2020 - 09:50

Höfundar

Valgeir Helgi Bergþórsson var svo heppinn að vera á staðnum og ná að bjarga lífi föður síns þegar hann hné niður fyrir framan sjónvarpið fyrir þremur árum síðan. Hann var hins vegar því miður ekki viðstaddur þegar bróðir hans, sem honum þótti afskaplega vænt um, lést tveimur árum síðar.

Valgeir keypti sér íbúð sem mikið þurfti að lappa upp á. Hann réðst í framkvæmdir en að þeim loknum veiktist hann illa. Hann komst að því að myglusveppur væri á heimilinu og hann væri valdur að heilsubrestinum. Valgeir losaði sig við sveppinn en meðan á þeim aðgerðum stóð dvaldi hann hjá foreldrum sínum. Núna er hann feginn því, því hann var til staðar þegar þau þurftu á honum að halda fyrir þremur árum síðan. „Ég er rosaleg B-týpa og sef frameftir en einn daginn vekur mamma mig og segir að það sé eitthvað á seyði með pabba, hann hreyfi sig ekki og svari ekki þegar hún tali við hann. Ég hoppa fram úr,“ rifjar Valgeir upp. Hann segir frá björguninni kærkomnu og missinum sára í þættinum Ástarsögur á Rás 1.

Faðir hans sat í stól fyrir framan sjónvarpið en á honum var ekkert lífsmark. „Ég finn að það er enginn púls. Pabbi er stór maður og ég gat ekki hreyft hann úr stólnum til að komast í betri stöðu því jafnvel þó ég sé stór er hann stærri. Ég byrja á að hnoða hann og mamma stendur til hliðar og spyr hvað hún eigi að gera. Ég öskra: Hringdu í 112.“ Á meðan móðir hans talaði við neyðarlínuna hnoðaði Valgeir Helgi föður sinn. „Ég hnoða og hnoða, heyri nokkur rifbein brotna og loks mæta þeir á svæðið. Ég hjálpa þeim að koma honum á jörðina og þeir taka við, taka hann upp á spítala og gefa honum stuð í bílnum.“

Það var aðeins eitt sem Valgeir gat hugsað á meðan á þessu stóð. „Það eina sem fer í gegnum hugann er ekki deyja. Ég öskraði það meira að segja á hann,“ segir Valgeir. „Ég var ekki viss hvort það væri púls svo ég sló hann utanundir til að athuga hvort það væri lífsmark. Það var ekkert.“

Faðir Valgeirs lifði af og það var að miklu leyti Valgeiri að þakka. „Hann er í lagi í dag og enn vinnandi meira að segja. Hann verður sjötugur á næsta ári,“ segir Valgeir. „Það er súrrealísk hugsun að ef ég hefði ekki keypt mér þetta hús þá hefði ég hugsanlega ekki verið heima. Eins elskuleg og mamma er kann hún ekkert í skyndihjálp svo hún hefði ekkert getað gert.“

Þrátt fyrir þakklætið fyrir að hafa verið til staðar fyrir föður sinn á réttum tíma segist Valgeir líka upplifa sorg. „Ég er með samviskubit yfir að hafa ekki verið heima þegar bróðir minn deyr.“

Hann var á leið í brúðkaup fyrir ári síðan hjá vini sínum sem ætlaði að ganga í það heilaga á Korsíku þegar hann fær skelfilegar fregnir. „Ég fæ símtal um að bróðir minn sé dáinn. Ég er með samviskubit yfir því að hafa ekki verið heima þá. Ég hefði mögulega getað hjálpað honum,“ segir Valgeir sem viðurkennir líka að hann átti sig á því að hann hefði líklegast lítið getað gert til að bjarga bróður sínum. „Hann dó um miðja nótt, ég hefði líklega verið sofandi hvort eð er.“

Hann fer fögrum orðum um bróður sinn. „Hann var vænsti maður sem lenti undir í samfélaginu. Var öryrki með flogaveiki á mjög háu stigi, búinn að fara í tvær eða þrjár heilaskurðaðgerðir til að reyna að stemma stigu við flogaveikinni,“ segir Valgeir. „Hann var í Karlar í skúrnum sem er verkefni hjá Rauða Krossinum þar sem einstæðingar og þeir sem þurfa mannleg samskipti eða eru vinalausir hittast. Hann var í því og kominn á mjög góðan stað í lífinu, byrjaður að eignast vini og kunningja. Svo er hann bara farinn.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Valgeir Helga Bergþórsson í þættinum Ástarsögur á Rás 1. Í þættinum er tilveran skoðuð frá ýmsum ólíkum hliðum í gegnum sögur ólíkra viðmælenda af allskonar ást.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Hann er alltaf einn af okkur“

Menningarefni

„Svona ætla ég að minnast sonar míns“