Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Prinsinn sagður hafa boðið Maxwell og Spacey í höllina

epa07824747 Britain's Prince Andrew (C) during the commemorative ceremony of the 75th anniversary of the liberation of Bruges, in Brugge, Belgium, 07 September 2019.  EPA-EFE/JULIEN WARNAND
 Mynd: EPA
Ljósmynd sem sýnir Ghislaine Maxwell fyrrverandi kærustu bandaríska barnaníðingsins Jeffrey Epstein og bandaríska leikarann Kevin Spacey í svokölluðum krýningarsal í Buckingham-höll þykir sanna enn fremur náið samband Andrésar Bretaprins við Epstein og aðila honum tengda.

Í umfjöllun breska dagblaðsins The Daily Telegraph, sem birti myndina í gær, segir að hún hafi verið tekin árið 2002.  Þar sjást þau Maxwell og Spacey láta fara vel um sig í bleiku plussklæddu og gylltu hásæti sem að öllu jöfnu er eingöngu ætlað konungi og/eða drottningu landsins.

Í umfjöllun Telegraph segir að Andrés Bretaprins hafi boðið þeim í höllina. Talsmenn bresku konungsfjölskyldunnar neituðu að svara fyrirspurnum blaðsins um tilurð myndarinnar og það sama gerði talsmaður prinsins. 

Krýningarsalurinn hefur verið vettvangur ýmissa sögulegra atburða; þar hélt Viktoría drottning glæsilega dansleiki og George V, afi Elísabetar Englandsdrottningar, nýtti þessi salarkynni til að aðla fólk.

Sjá einnig: Kevin Spacey kærður fyrir kynferðisbrot

Kevin Spacey, sem einna þekktastur er fyrir leik sinn í þáttunum House of Cards, hefur verið sakaður um fjölda kynferðisbrota. Bandaríska alríkslögreglan, FBI, handtók Maxwell í síðustu viku. Hún kynnti prinsinn fyrir Epstein, þeim varð vel til vina og hefur prinsinn verið sakaður um að hafa þrisvar sinnum brotið kynferðislega á stúlku undir lögaldri, skömmu fyrir aldamót.

Sjá einnig: Fyrrum kærasta Jeffrey Epsteins handtekin af FBI

Sjá einnig: Saksóknarar vilja að Andrés prins gefi skýrslu

Bandarísk stjórnvöld hafa ítrekað farið fram á það við Andrés prins að hann gefi skýrslu um tengsl sín við Epstein. Hann hefur ekki orðið við þeirri beiðni. Epstein fyrirfór sér í fangelsi í fyrrasumar, þegar rannsókn á máli hans, stóð sem hæst, en hann var talinn vera höfuðpaur í umfangsmiklu kynferðisbrotamáli gegn ungum stúlkum.

Sjá einnig: Vilja að prinsinn aðstoði við rannsóknina á Epstein