
Kindin klónaða hefði orðið 24 ára í dag
Heimildir greinir reyndar á um hvort hún hafi komið í heiminn 5. eða 6. júlí 1996 en hvor dagurinn sem er markar tímamót í vísindarannsóknum. Dollý var nefnilega fyrsta klónaða spendýr veraldarsögunnar.
Með einræktun eru búnar til erfðafræðilega eins lífverur. Dollý var klónuð með nokkrum frumum, þar á meðal úr júgri sex ára gamallar finnskrar Dorset-kindar í Roslin-stofnuninni í Edinborg. Eggin komu úr kind af Scottish Blackface-kyni.
Vegna uppruna frumunnar fannst einhverjum spaugsömum við hæfi að nefna klónið í höfuðið á frægri bandarískri sveitasöngkonu með ættarnafnið Parton. Ekki er víst að sú kímni þætti viðeigandi í dag. Vísindalegt heiti Dollýjar kindar var 6LL3 sem er óneitanlega öllu dauflegra.
Ekki var tilkynnt um burð Dollýjar fyrr en í febrúar árið eftir. Hún gæti því átt nokkra fæðingardaga ef því er að skipta. Mæðiveiki varð henni að bana í febrúar 2003, hún var stoppuð upp og höfð til sýnist á safni í Edinborg.
Ekki leist öllum á blikuna, jafnvel var talið að klónun yrði notuð í vafasömum og jafnvel ólöglegum tilgangi. Þar á meðal til að mannverur yrðu klónaðar til þess eins að útvega líffæri. Slíkt hefur ekki gerst ennþá.
Allmörg spendýr voru klónuð næstu árin á eftir og tækninni hefur sífellt fleygt fram. Í gær bárust fréttir af fagnaðarfundum klónaða hundsins Samson og eigenda hans, Dorritar Moussaieff og Ólafs Ragnars Grímssonar fyrrverandi forseta Íslands.