Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Færeyska glæpaþáttaröðin TROM fær fé frá landsstjórn

epa06016625 The harbour of the country's capital Torshavn, Faroe Islands, 08 June 2017.  EPA/GEORGIOS KEFALAS
 Mynd: EPA - KEYSTONE
Líkur hafa á ný aukist á að færeyska glæpaþáttaröðin TROM verði kvikmynduð í Færeyjum. Landsstjórnin hefur haldið að sér höndum um fjármögnun þannig að um tíma leit út fyrir að upptökur yrðu á Íslandi í staðinn.

Ákveðið var á landsstjórnarfundi í vikunni að leggja til þær fjórar milljónir danskra króna sem þarf til að klára verkið, á næstu tveimur árum. Enn er óvíst hvort tveimur sveitarfélögum sem hugðust taka þátt í fjármögnun þáttaraðarinnar sé það heimilt.

TROM byggir á skáldsögum færeyska rithöfundarins Jógvans Isaksen um rannsóknarblaðamanninn Hannis Martinsson. Söguþráður þáttanna er á þá leið að dýraverndunarsinni finnst látinn meðan á grindhvaladrápi, hinum gamla færeyska sið, stendur. Grunur beinist að fjölda fólks og gæti hver sem er hafa orðið manninum að bana.

Jón Hammer framleiðandi þáttanna kvaðst í viðtali við færeyska sjónvarpið vera bjartsýnn á að tökur gætu hafist snemma á næsta ári. Þáttaröðin gæti þá verið tilbúin til sýninga síðla næsta árs.