Bottas fagnaði sigri en Hamilton hlaut refsingu

Mynd með færslu
 Mynd:

Bottas fagnaði sigri en Hamilton hlaut refsingu

05.07.2020 - 15:50
Finnski ökuþórinn Valtteri Bottas kom fyrstur í mark í fyrsta kappakstri tímabilsins í Formúlu 1 sem fram fór í Austurríki í dag. Bottas var með forystu frá upphafi til enda.

Bottas var á ráspól í dag en liðsfélagi hans á Mercedes, heimsmeistarinn Lewis Hamilton byrjaði fimmti. Þeir fóru báðir vel af stað þar sem Finninn sleit sig frá næstu mönnum í forystunni og Hamilton vann sig fljótlega upp í þriðja sætið.

Max Verstappen var annar í upphafi og hélt þeirri stöðu fyrstu 15 hringina þegar vélarbilun gerði vart við sig. Verstappen féll úr öðru sæti niður í það sautjánda áður en hann játaði sig sigraðan og hætti keppni. Átta aðrir fóru sömu leið og gátu ekki klárað kappaksturinn, þar á meðal Alexander Albon, liðsfélagi hans hjá RedBull.

Albon var á meðal þeirra fremstu lengi vel en þurfti að draga sig úr keppninni þegar aðeins tveir hringir voru eftir vegna samskonar vélarbilunar og hrjáði Verstappen. Hamilton hafði farið utan í bíl Albons nokkrum hringjum fyrr með þeim afleiðingum að hann hringsnerist á brautinni.

Það átti eftir að kosta Hamilton sem lenti í fjórða sæti í dag þrátt fyrir að koma annar í mark á eftir Bottas. Fimm sekúndna refsingin sem Hamilton fékk þýddi að Charles Leclerc úr Ferrari varð annar og Lando Norris úr McLaren þriðji. Norris er aðeins tvítugur og er sá þriðji yngsti til að komast á pall í sögu Formúlu 1.

Sæti Ökuþór Lið Stig
1 Valtteri Bottas Mercedes 25
2 Charles Leclerc Ferrari 18
3 Lando Norris McLaren 16
4 Lewis Hamilton Mercedes 12
5 Carlos Sainz McLaren 10
6 Sergio Pérez Racing Point 8
7 Pierre Gasly Alphatauri 6
8 Esteban Ocon Renault 4
9 Antonio Giovinazzi Alfa Romeo 2
10 Sebastian Vettel Ferrari 1