Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Alvarlega geðfatlaður maður nánast á vergangi án úrræða

05.07.2020 - 19:08
Mynd: RUV / RUV
Geðfatlaður maður sem þarf aðgang að stuðningi allan sólarhringinn fær ekki viðeigandi úrræði eftir útskrift af endurhæfingargeðdeild Landspítalans. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir óboðlegt hvernig ríki og sveitarfélög taki á geðheilbrigðismálum.

Maðurinn sem um ræðir er á fertugsaldri og hefur búið hér á landi í tuttugu ár. Fyrir rúmum áratug varð hann fyrir heilaskaða eftir líkamsárás sem leiddi til geðrofs og mikillar fíkniefnaneyslu. Hann hefur verið sviptur sjálfræði og undanfarið ár verið vistaður á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild Landspítalans eftir að hafa ógnað fjölskyldu sinni, en eftir útskrift eru engin viðeigandi úrræði sem taka við.

„Hann er útskrifaður því það er í raun ekkert meira hægt að gera fyrir hann. Þessi meðferð sem hefur reynst honum mjög vel mun eyðileggjast á korteri og hann verður kominn á kaf í neyslu aftur, sem mun leiða til þess að hann mun þurfa að fara aftur inn á geðdeild og aftur í afeitrun, og síðan mun þessi skrípaleikur bara endurtaka sig. Þetta er hringleikahús fáránleikans,“ segir Ómar R. Valdimarsson, lögráðamaður mannsins.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Ómar R. Valdimarsson, lögráðamaður mannsins.

Mikil batamerki eftir meðferð á Landspítala

Eftir útskrift er maðurinn í raun á vergangi. Hann getur ekki búið hjá foreldrum sínum og börnum þar sem mál þeirra er í ferli hjá Barnavernd. Hann hefur fengið leigt lítið herbergi í breyttu atvinnuhúsnæði í Reykjavík á meðan hann er á biðlista eftir viðeigandi vistunarúrræði hjá Reykjavíkurborg. 

Í mati sem fylgir umsókninni kemur fram að maðurinn þurfi að hafa aðgengi að starfsfólki allan sólarhringinn. Eftir meðferðina á Landspítalanum hafi hann sýnt mikil batamerki. Raddir sem hann hefur heyrt viðstöðulaust síðustu tíu árin séu loksins horfnar og það sé mikilvægt að hann fái inni í sérhæfðu búsetuúrræði. Rúmt ár er liðið síðan sótt var um slíkt úrræði.

„Þetta er eitthvað reiptog á milli ríkisins sem rekur Landspítalann og síðan félagsþjónustunnar í Reykjavík sem að á að sjá um borgara sína sem svona er fyrir statt. Þetta er maður sem er mjög alvarlega veikur og við erum algjörlega að bregðast okkar minnstu bræðrum,“ segir Ómar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.

„Þetta er auðvitað óboðlegt“

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að því miður sé það þekkt að oft taki ekkert við í samfélaginu fyrir fólk sem kemur úr meðferð vegna geðrænna vandamála.

„Kannski er það því þetta er að einhverju leyti aftarlega í forgangsröðinni hjá mörgum. Það ætti alls ekki að vera það. Þetta er stóra mál 21. aldarinnar og við ættum að sjá sóma okkur í því að gera þetta eins og menn,“ segir Grímur.

Hann segir nauðsynlegt að bregðast við með auknu samstarfi í geðheilbrigðismálum því núverandi ástand sé óboðlegt.

„Við skulum hætta því að láta fólk daga uppi á stofnunum af því það kemst ekki í búsetu sem það á rétt á samkvæmt lögum, af því sveitarfélög og hið opinbera, ríkið, eru hreinlega ekki að standa sig. Þetta er auðvitað óboðlegt,“ segir Grímur.