
Trump varar við herferð vinstri sinnaðra fasista
Trump fór mikinn um kröfur mótmælenda um að fella styttur og minnismerki víða um landið. Hann sagði bandaríska sögu liggja undir árásum öfgafullra vinstri sinnaðra fasista. Hann sagði þjóðina nú verða vitni að herferð gegn sögu hennar. Hetjur hennar væru sviptar hetjuljóma sínum, gildi Bandaríkjanna væru afmáð og ryent að koma þeim hugmyndum að börnum að hetjur bandarískrar sögu væru í raun skúrkar. „Reiður múgur reynir að rífa niður styttur af stofnendum Bandaríkjanna, afmynda helgustu minnismerki okkar og koma af stað ofbeldisöldu í borgum okkar," sagði Trump við Mount Rushmore í Suður-Dakóta í gærvöld. Sem mótsvar við því lagði Trump til að setja á stofn stærðar almenningsgarð með styttum af merkustu Bandaríkjamönnum sögunnar.
— The White House (@WhiteHouse) July 4, 2020
Rushmore-fjall er eitt þekktasta minnismerki Bandaríkjanna, með höggmynd sinni af fjórum fyrrum forsetum. Trump tjáði áheyrendum að minnisvarðinn sem hann stóð fyrir framan yrði aldrei saurgaður. „Þessar hetjur verða aldrei afmyndaðar. Arfur þeirra verður aldrei nokkurn tímann eyðilagður. Afrek þeirra gleymast aldrei. Og Rushmore fjall mun að eilífu standa til heiðurs forfeðra okkar og frelsis," sagði Trump.
"This monument will never be desecrated. These heroes will never be defaced. Their legacy will never, ever be destroyed. Their achievements will never be forgotten. And Mount Rushmore will stand forever as an eternal tribute to our forefathers and to our freedom." pic.twitter.com/mR3zhGvXwn
— The White House (@WhiteHouse) July 4, 2020
Fyrir amerískum frumbyggjum af Sioux-þjóðinni er minnismerkið þó gróf vanhelgun á landi þeirra. Á vef bandaríska almannasjónvarpsins, PBS, segir að Rushmore-fjall sé byggt á landsvæði sem Bandaríkjastjórn hirti af Sioux-þjóðinni, Black Hills, þar sem fjallið er, sé einstaklega helgt svæði fyrir þeim og minnismerkið fagni komu evrópskra landnema sem drápu fjölda innfæddra íbúa Norður-Ameríku og stálu landi þeirra. Afkomendur amerískra frumbyggja reyndu að loka veginum í átt að minnismerkinu í gærkvöld. Vildu þeir þannig mótmæla því að Trump væri að fagna sjálfstæði Bandaríkjanna á helgri grund frumbyggja.
Þrátt fyrir ört vaxandi kórónuveirufaraldur var séð til þess að þeir sem komu til að hlýða á forsetann sætu þétt saman. Skömmu áður en Trump hélt ræðu sína bárust fregnir af því að Kimberly Giulfoyle, kærasta Donald Trump yngri, hafi greinst með veiruna. Hún var send í einangrun og Trump yngri var hvergi sjáanlegur í gærkvöldi. Forsetinn tjáði sig lítið um faraldurinn í gærkvöld.