Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stal grimmt frá fjölskyldu ástmannsins

Mynd: Davíð R.G. / RÚV

Stal grimmt frá fjölskyldu ástmannsins

04.07.2020 - 11:22

Höfundar

Rithöfundurinn Bergþóra Snæbjörnsdóttir, sem var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sínar tvær síðustu bækur, er eins og stendur sjómannsfrú og kona í landi með tvö börn. Hún er með BA-gráðu í sálfræði og áhrif áfalla og grimmdarhegðun venjulegs fólks eru henni hugleikin.

Bergþóra segir auðveldara að vera sjómannsfrú í landi nú en fyrr á öldum en Bragi Páll Sigurðarson, barnsfaðir hennar og sambýlismaður, er líka rithöfundur. „Ég get náttúrulega alltaf heyrt í honum á messenger. Hann gerir út að vestan þar sem hann er með lítinn bát með vini sínum.“ Hann hafði ætlað sér að sigla með túrista í sumar en vegna COVID-19 faraldursins sneri hann sér að veiðum í staðinn. „Þetta er sumarvinna hjá mér að vera kona í landi og mér finnst það rosalega krefjandi. Við erum með átta mánaða barn og annað fimm ára. Ég hef aldrei verið jafn spennt fyrir því að sumarið sé búið.“ Hún fær þó Braga einstaka sinnum heim í nokkra daga inn á milli eða þegar það viðrar ekki nógu vel.

„Ætli pabbi sé drukknaður núna?“

Hún er þó ýmsu vön en síðasta sumar keyptu þau sér seglskútu sem Bragi sigldi frá Sikley til Íslands. „Þá var ég ólétt og sá hann ekki í tvo mánuði. Það var mjög skrítið,“ segir Bergþóra sem játar að hafa stundum verið hrædd um hann. „Þá var ég búin að vera í mikilli heimildavinnu fyrir Svínshöfuð, og það var þannig, til dæmis langamma hans Braga, að hún var í landi með krakkaskara meðan maðurinn fór í sex mánuði og hún vissi ekki neitt.“ Hún segir dóttur sína oft velta þessu fyrir sér. „Hún er oft bara, „já, ætli pabbi sé drukknaður núna?“ og ég bara „neinei, ég er að tala við hann á messenger“.“

Mynd með færslu
 Mynd: -
Bergþóra ásamt sambýlismanni sínum, rithöfundinum og sjómanninum Braga Páli Sigurðarsyni.

Í fyrstu skáldsögu sinni Svínshöfuð sem var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna elst aðalpersónan upp í eyju á Breiðafirði. „Fjölskylda Braga er að vestan og amma hans var alin upp í Eilliðaey á Breiðafirði. Eina frægðin sem henni hefur hlotnast var þegar Björk var að pæla í að kaupa hana og Davíð Oddsson bauðst til að gefa henni hana, og þá fannst henni það óþægilegt og hætti við allt.“ Bergþóra heillaðist af sögunni um eyjalífið og hellti sér í rannsóknir á Bókasafni Kópavogs. „Það er mjög ódýrt kaffi þar, og ég sat þar og vann og leitaði uppi allt sem ég fann.“ Þar á meðal hafi verið Útkalls-bækurnar, Saga Snæfellsnes og vefsíðan ísmús þar sem hægt er að finna upptökur af frásögnum gamals fólks af lífinu til forna. „Ég stal alveg grimmt frá fjölskyldunni hans Braga. Hann ætlaði í raun alltaf að skrifa þessa bók,“ segir Bergþóra.

Listamenn voru önnur tegund

Þrátt fyrir að Bergþóra hafa alist upp inni í landi á Suðurlands-undirlendinu mætti segja að hafið hafi nú nokkur völd yfir henni og fjölskyldu hennar. „Það gefur, og stundum ekki svo mikið. Bæði okkar fjárhagur, tilfinningalíf og dagleg rútína er mjög í höndum þess. Svo eigum við þennan seglbát og erum með drauma um að fara sjálf í reisu einn daginn.“ Hún þurfi þá að reyna að yfirstíga ótta sinn við hafið. „Það að hafa lesið mér til um allan sjóskaða á 20. öldinni er ekki að hjálpa mikið til,“ segir hún hlæjandi.

Bergþóru datt aldrei í hug að verða rithöfundur þótt hún hafi verið sískrifandi frá fimm ára aldri. „Það hvarflaði ekki að mér. Ég ætlaði bara að vera bóndi. Samt er ég með ofnæmi fyrir öllum dýrahárum, heyi, ryki, grasi og finnst útivist óbærilega leiðinleg. Samt fannst mér það raunhæfara, því listamenn voru bara önnur tegund sem var manni svo fjarlæg.“ Bergþóra hefur einnig unnið talsvert með myndlistarkonunni Rakel MacMahon en saman mynduðu þær gjörningatvíeykið Wunderkind Collective. „Það var uppspretta rosalega mikils fúskarasyndróms hjá mér að vera í þessu gjörningastússi með henni. Hún er menntaður myndlistarmaður og mér fannst ég ekki mega taka þátt í þessu.“

Að skrifa sig frá grimmdinni

Tilvera og réttindi þeirra sem standa utangarðs í samfélaginu hafa lengi verið Bergþóru hugleikin. Hún segir það sé þó ekki markmiðið með skrifum sínum heldur hafi það komið ósjálfrátt. Henni er sérstaklega minnisstætt þegar hún sá Önnu Kristjánsdóttur, fyrstu trans konuna á Íslandi, koma í viðtal hjá Hemma Gunn. „Þá er ákvörðun tekin um það að Laddi kemur í gervi Elsu Lund og sest við hliðina á henni og allir hlæja. Ég leitaði þetta atriði upp í heimildarmynd sem var gerð fyrir 10-15 árum síðan. Þar situr hún ótrúlega yfirveguð en maður sér bara sársaukann í andlitinu á henni.“

Bergþóra kláraði BA-gráðu í sálfræði þó hún hafi aldrei starfað sem slíkur og í Svínshöfði eru áföll henni hugleikin, hvernig þau sitja í fólki og mögulega erfast milli kynslóða. „Líka hópamyndun og hvernig venjulegt fólk getur sýnt af sér grimmd. Það eru atvik úr eigin bernsku þar sem ég man eftir að hafa sýnt öðrum börnum grimmd sem sitja í mér. Kannski er ég alltaf að reyna að skrifa mig frá því.“

Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Jóhannes Ólafsson ræddu við Bergþóru Snæbjörnsdóttur í Tengivagninum þar sem þemað var hafið, og Bergþóra valdi lög í samræmi við það. Hægt er að hlusta viðtalið í heild í spilaranum efst í færslunni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Listilegar lýsingar og enginn byrjendabragur

Bókmenntir

Skiptast á að vera Auður Laxness

Bókmenntir

Margslungin og átakanleg fjölskyldusaga

Bókmenntir

„Hún er afkvæmi míns vanskapaða huga“