Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samson er kominn heim til Dorritar og Ólafs

04.07.2020 - 11:20
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Twitter-síða Ólafs Ragnars Gr
Hundurinn Samson, sem klónaður var úr erfðaefni forsetahundsins Sáms, er nú laus úr vistinni á einangrunarstöðinni í Reykjanesbæ. Þar hefur hann dvalið undanfarnar vikur eftir að hann kom frá Bandaríkjunum og er nú kominn til síns heima sem er heimili fyrrverandi forsetahjónanna Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorritar Moussaieff.

Ólafur greinir frá þessu á Twitter-síðu sinni. Þar birtir hann mynd af Samson og Dorrit með textanum „#Samson is finally home; playing in his father’s garden!“ eða Samson er loksins kominn heim: leikur sér í garði föður síns.

Samson fæddist í október, en sýni höfðu verið tekin úr Sámi og send til fyrirtækis í Texas í Bandaríkjunum sem ræktaði úr þeim frumur. Þeim var svo skipt út fyrir kjarnafrjóvgaðar eggfrumur og komið fyrir í legi tíkur. Samson dvaldi í Bandaríkjunum fram að komunni til landsins.

Þegar hann kom hingað sagði Dorrit í samtali við Fréttastofu RÚV að Samson væri í mjög góðum höndum á einangrunarstöðinni. Ferðalagið hefði verið langt og strangt en Samson staðið sig mjög vel. Hún sagði þar að Samson væri einstaklega kurteis og góður hundur og barnvænni en Sámur sálugi var. 

„Hann er miklu betri með krökkum. En ég held að það sé ekki skapgerð hans, heldur hvernig hann var alinn upp,“ sagði Dorrit. Hún sagðist vilja þjálfa Samson til að þefa uppi COVID-19 smit, en lyktarskyn hans væri mjög gott.