Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Rússneskar herflugvélar á eftirlitssvæðinu við Ísland

04.07.2020 - 16:39
Mynd með færslu
Orrustuflugvél ítalska flughersins sem sinnti loftrýmisgæslu við Ísland. Mynd: Giovanni Colla
Óþekktar flugvélar flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlandshafsbandalagsins (NATO) hér við land í fyrrinótt. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni höfðu flugvélarnar hvorki tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né voru með ratsjárvara í gangi.

Orrustuþotur ítalska flughersins flugu til móts við vélarnar eftir að komist var á snoðir um þær. Ítölsku þoturnar eru hér á landi við loftrýmisgæslu. 

Í tilkynningunni segir að vélarnar hafi verið auðkenndar suður af Stokksnesi. Þær reyndust langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar. Vélarnar voru ekki inni í lofthelgi Íslands en þó innan loftrýmiseftirlitssvæðis Atlantshafsbandalagsins. 

Atlantshafsbandalagið hóf loftrýmisgæslu við Ísland á nýjan leik í júní. Gæslan hefur farið fram með hléum undanfarin ár. „Verkefnið heyrir undir svæðisstjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) en Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hérlendis, í samvinnu við Isavia. Ítalska flugsveitin er með sex F-35 orrustuþotur hér á landi,“ segir í tilkynningu Landhelgisgæslunnar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rússneskar herflugvélar fljúga inn á eftirlitssvæði NATO án þess að tilkynna sig til flugumferðarstjórnar. Í mars á síðasta fóru rússneskar vélar í tvígang inn á svæðið. 

Upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunni gat ekki veitt nánari upplýsingar um atburðinn.