Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Réttarhöld yfir morðingjum Khashoggis hafin í Istanbúl

04.07.2020 - 00:42
Mynd: EPA-EFE / EPA
Réttarhöld yfir tuttugu sakborningum vegna morðsins á sádiarabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi hófust í Tyrklandi í dag. Khashoggi var myrtur í sendiráið Sádi Arabíu í Istanbúl árið 2008. Sakborningarnir voru ekki í dómssal, því Sádar neituðu að framselja þá til Tyrklands.

Átta voru dæmdir vegna morðsins í Sádi Arabíu í fyrra, þar af fimm til dauða. Réttarhöldin í Sádi Arabíu eru af mörgum talin hafa verið sýndarréttarhöld. BBC hefur eftir Agnesi Callamard, sérstökum skýrslugjafa Sameinuðu þjóðanna, að Khashoggi hafi verið fórnarlamb skipulagðrar aftöku af hálfu sádiarabíska ríkisins.

Beðinn um að kynda upp í ofni

Meðal þeirra sem báru vitni í dag voru Hatice Cengiz, unnusta Khashoggis, og Zeki Demir, tyrkneskur starfsmaður sendiráðs Sáda í Istanbúl. Cengiz sagði blaðamönnum fyrir utan dómshúsið að það ahfi tekið andlega á að rifja málið allt upp. Hún kvaðst þó hafa trú á tyrkneska réttarkerfinu og hún leiti áfram réttlætis í málinu.

Í framburði Demirs kom fram að hann hafi verið beðinn um að kynda upp í ofni, sem notaður var til að grilla mat. Fimm eða sex manns hafi verið á staðnum, og mikil geðshræring. „Það var eins og þeir vildu að ég færi sem fyrst," rifjaði Demir upp í vitnastúkunni. Þegar hann kom aftur til vinnu nokkrum dögum síðar tók hann eftir því að marmarinn í kringum ofninn hafði verið klórþrifinn.

Tveir fyrrverandi nánir ráðgjafar krónprinsins Mohammad bin Salman eru meðal þeirra sem eru ákærðir í málinu. Hinir átján sakborningarnir eru sagðir hafa verið sendir til Tyrklands til þess að ráða Khashoggi af dögum. Khashoggi skrifaði greinar í bandaríska dagblaðið Washington Post þar sem hann fór hörðum orðum um stjórnvöld í heimalandinu.