Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Líffræðilegt kyn hverfur úr hollenskum skilríkjum

Höfnin í Urk.
 Mynd: Wikipedia Commons
Líffræðilegs kyns einstaklinga verður ekki getið á hollenskum skilríkjum í framtíðinni nái hugmyndir Ingrid van Engelshoven mennta- og menningarmálaráðherra landsins fram að ganga.

Slíkar upplýsingar segir hún vera ónauðsynlegar og að fólk eigi að hafa fullt frelsi til að skapa sjálfsmynd sína. Hollenskir einstaklingar sem skilgreina sig milli kynja hafa mátt velja um opinbera kynjaskráningu sína frá árinu 2018.

Líffræðilegt kyn verður áfram skráð í hollensk vegabréf samkvæmt reglum Evrópusambandsins.

Samtök hinsegin fólks í Hollandi fagna fyrirætluninni sem ætlað er að komi til framkvæmda um miðjan áratuginn. Þetta séu frábærar fréttir fyrir það fólk sem flokkun af þessu tagi snertir. Sköpulag fólks eigi ekki á nokkurn hátt að koma ríkisvaldinu við.

Ætlun ráðherrans er að draga úr óþarfri skrásetningu kyns hvar sem því verði við komið. Holland fetar þarna í fótspor Þjóðverja sem hafa þegar fellt niður kynjaskráningu á skilríkjum sem notuð eru innanlands.