„Fólk er svolítið farið að gleyma sér“

04.07.2020 - 14:51
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
„Við finnum stóran mun frá því hvernig þetta var í vetur. Þá voru allir samtaka um að gera þetta verkefni saman. Það er ekki alveg sama árvekni í gangi og fólk er svolítið farið að gleyma sér,“ segir Rögnvaldur Ólafsson deildarstjóri hjá Almannavörnum.

Hann segir jafnframt að sum fyrirtæki séu farin að sofna á verðinum hvað varðar sóttvarnir. „Það eru stundum brögð á því að sprittbrúsinn sé tómur eða ekki til staðar,“ segir Rögnvaldur. 

Um helgina eru fjölmennar samkomur víða um land. Skipuleggjendum viðburða þar sem fleiri en 500 manns koma saman ber að skipta svæðinu í hólf og tryggja að samgangur sé ekki á milli hólfa. Talsvert hefur borið á kvörtunum varðandi framkvæmd hólfaskiptinga.

„Við höfum verið að heyra af því að það gangi svolítið brösuglega að fá fólk til að virða hólfaskiptingu og annað sem hefur verið sett upp til þess að það sé hægt að halda viðburði. Það er svolítið áhyggjuefni,“ segir hann. Rögnvaldur segir að í gær hafi verið brugðið á það ráð að fá lögreglu til þess að vera sýnileg til þess að minna fólk á reglur um hólfaskiptingu og tryggja að stórir hópar fari ekki yfir 500. 

Hann segir að til greina komi að setja strangari reglur ef sóttvarnarreglur verða áfram virtar að vettugi. „Ef þetta breytist ekkert og við fáum frekari smit þá þarf að bregðast við því með einhverjum hætti og það gæti alveg þýtt [strangari reglur],“ segir Rögnvaldur.  

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi