Flóðbylgja sló út vél Sultartangavirkjunar

04.07.2020 - 19:11
Mynd: Mynd/Landsvirkjun / Mynd/Landsvirkjun
Mildi þykir að verktakar voru farnir af vinnusvæði þegar mikið grjót hrundi ofan í frárennslisskurð við Sultartangavirkjun. Rafmagnsframleiðsla liggur að mestu niðri og vinna verktakar allan sólarhringinn við að fjarlægja grjótið úr skurðinum.

Það var um hálf tvö leytið í gær sem stór fylla hrundi undan gömlu brúnni ofan í Sultartangaskurð sem liggur frá stöðvarhúsinu. Miklar framkvæmdir standa yfir á svæðinu, nýbúið er að byggja nýja brú og í skurðinum sjálfum er unnið að því að búa til syllur til að koma í veg fyrir síendurtekið berghrun ofan í hann. Verktakar höfðu lokið störfum aðeins einum og hálfum tíma áður en hrunið varð.

„Þegar þetta féll niður þá gusaðist vatnið alveg hérna upp á barma hérna megin og flóðbylgja alveg inn í stöð og svo niður úr. En sem betur fer þá var enginn hérna niðri þegar þetta gerðist þannig að það varð ekkert manntjón. Menn voru hættir að vinna þá. Þeir hættu um hádegi,“ segir Gunnar Þór Guðmundsson, verkefnisstjóri hjá Landsvirkjun.

Stefnt á að hefja framleiðslu annað kvöld

Sultartangavirkjun stöðvaðist að mestu við atvikið. Vél eitt stöðvaðist við flóðbylgjuna og vél tvö er keyrð á litlu álagi á meðan rennsli úr skurðinum er lítið. Þetta hefur þó ekki áhrif á afhendingu á raforku frá Landsvirkjun þar sem notkun á þessum árstíma er í lágmarki.

Verktakar voru kallaðir út í morgun og hófust þeir strax handa við að moka grjótinu úr skurðinum. „Við ætlum að gera það sem hægt er til að koma stöðinni aftur í gang sem verður vonandi annað kvöld og fram að því verður unnið hérna öllum stundum. Við náum þessu eflaust ekki öllu upp en ég á von á því að við náum því þannig að þetta geti farið í gang aftur,“ segir Gunnar sem áætlar að um fimm til sex þúsund rúmmetrar af grjóti hafi fallið ofan í skurðinn. 

Fjarlægja gömlu brúnna

Lokað var fyrir umferð um gömlu brúna þegar grjóthrunið varð og lán í óláni að nýja brúin, sem stendur aðeins ofar, hafi verið nær tilbúin. Því var hægt að beina umferð þangað. Gamla brúin verður svo fjarlægð á næstu misserum, segir Gunnar. „Ég á von á að þessi gamla brú verði farin eftir svona mánuð eða svo.“

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi