„Besservissera-genið kemur úr föðurleggnum“

Mynd: RÚV / RÚV

„Besservissera-genið kemur úr föðurleggnum“

04.07.2020 - 13:19

Höfundar

Rakel Garðarsdóttir framkvæmdastýra Vesturports og aktívisti fæddist ekki fyrr en tveimur vikum eftir settan dag og segist faðir hennar, Garðar Gíslason kennari, hafa vanist því alla hennar tíð að hún láti bíða eftir sér.

„Við systkinin erum bæði svona. Við höfum verið óstundvís í gegnum tíðina sem er skrýtið því við erum ekki alin upp við það,“ segir Rakel um þau bróður sinn, Gísla Örn leikara og leikstjóra og systur þeirra Ágústu. „Ég verð aldrei pirraður út í þau,“ segir pabbinn sem er orðinn vanur því að bíða eftir börnunum sínum. 

„Hún hafði mig algjörlega í vasanum“

Þau hafa alltaf verið náin en Garðar segir að aðeins hafi reynt á samskiptin þegar Rakel var á gelgjuskeiði. „Sambandið var lærdómsríkt þegar hún var unglingur. Við höfðum töluverðar áhyggjur,“ segir hann. „Bróðir hennar læddist með veggjum og var ekki að auglýsa hvað hann ætlaði að gera en Rakel var töffarinn. Hún setti bara hausinn undir sig og strunsaði áfram.“ Rakel viðurkennir að hafa stundum gefið foreldrum sínum ástæðu til að vera stressuð en segist einfaldlega hafa verið forvitin um lífið. Og þegar hún vildi eitthvað spurði hún bara pabba. „Hann sagði alltaf já við öllu, annars skellti ég bara hurð og fór inn í herbergi.“ Garðar tekur undir. „Hún hafði mig algjörlega í vasanum.“ 

Og feðginin segjast að vera nokkuð lík og bæði miklir besservisserar, aðstandendum sínum stundum til ama. „Besservissera-genið kemur úr föðurleggnum,“ segir hún. „Þetta hefur farið í taugarnar á okkar nánustu en er okkur ekki alveg sama?“ segir Garðar og dóttir hans tekur undir. „Það er til dæmis erfitt að spila skrafl við hana því hún býr til svo mikið af nýjum orðum. Þá er ég bara með orðabókina uppi,“ bætir hann við.

Mynd með færslu
 Mynd: Rakel Garðarsdóttir - Aðsend
Feðginin eru náin og tala saman á hverjum degi

„Mér finnst þessi stelpa mín svo flott“

Garðar var mikið mærður á meðan hann starfaði sem kennari og segist Rakel oft hitta fólk sem segir henni að pabbi hennar hafi reynst þeim vel. „Við systkinin, ég, Gísli og Ágústa erum alltaf að hitta krakka sem segja að pabbi hafi bjargað lífi þeirra og hjálpað þeim að fá áhuga á námi,“ segir hún og faðir hennar segir gaman að heyra að hann hafi staðið sig vel. „Það er gott að hafa vitneskju um að maður hafi verið á réttri leið. Ég hafði áhuga á kennslunni á hverjum einasta degi og leiddist aldrei í fjörutíu ár. Vaknaði alltaf spenntur og enginn dagur eins,“ segir hann. „Ég er stolt af honum, hann er frábær,“ segir Rakel og hann er líka stoltur af dóttur sinni. „Mér finnst þessi stelpa mín svo flott og það er ekkert sem stoppar hana. Hún þorir og hefur heldur betur sýnt að hún getur það sem hún vill. Ég stend bara á hliðarlínunni og dáist að henni,“ segir Garðar sem fullyrðir að dóttir hans sé föðurbetrungur en hún hefur meðal annars verið í fararbroddi í vitundarvakningu um umhverfismál og matarsóun.

„Ég man fyrst þegar hún var að byrja á þessu, þetta byrjaði eiginlega á því að þú ákvaðst að hætta að borða franskar. Svo fórum við á veitingastað og ég fékk mér þrefaldan matarskammt en fannst grænmetið ekki gott og ýtti þessu frá mér. Þá horfir hún á mig og segir: Pabbi, ég þekki alla hér inni. Ég er í forsvari fyrir matarsóun og þú étur þetta. Hún kenndi mér þessa lexíu og ég tek lítið á diskinn í einu, fer heldur bara aðra ferð.“ 

„Hvað er fyrirgefning, áttu orðabók?“

En þó feðginin séu lík og Garðar sé orðinn meðvitaðari þegar kemur að matarsóun þá eru þau þó ólík um sumt. Garðar, ólíkt Rakel, á til dæmis erfitt með að fyrirgefa. „Pabbi er langræknasti maður sem ég hef hitt,“ segir Rakel og Garðar veit upp á sig skömmina. „Ég gleymi engu og fyrirgef ekki. Aldrei í lífnu,“ segir hann. „Hvað er fyrirgefning aftur, áttu orðabók? Ég þarf að fletta því upp.“ Garðar viðurkennir þó að það geti flækt lífið að vera langrækinn.

Rakel segir að langrækni föður síns sé þeim systkinum víti til varnaðar. Sjálf á hún auðvelt með að fyrirgefa og hefur tamið sér að velta sér ekki upp úr fortíðinni. En feðginin hafa ekki þurft að láta reyna á fyrirgefninguna og tala þau saman á hverjum degi, að minnsta kosti símleiðis. Og þótt Garðar geri ekki upp á barna sinna þriggja segir hann að Rakel eigi alveg sérstakan stað í hjarta hans. „Ég hef alltaf verið veikur fyrir henni.“ 

Rætt var við feðginin Garðar Gíslason og Rakel Garðarsdóttur í Gestaboði á Rás 1.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

„Það var bara unnið, drukkið og djammað“

Umhverfismál

17 milljarðar í ruslið vegna matarsóunar