Andstyggilegur dónakall og siðblindur botnfiskur

Mynd: EPA / EPA

Andstyggilegur dónakall og siðblindur botnfiskur

04.07.2020 - 15:13

Höfundar

Bókarýnir Víðsjár segir fyrri hluta æviminningabókar Woody Allens illa skrifaðan og samhengislausan. Í síðari hlutanum komi svo í ljós að Allen sé ekkert nema lágkúrulegur botnfiskur, stundum ráði hann ekki við sig og flaggi siðblindu sinni skammlaust.

Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:

„Ég kæri mig ekkert sérstaklega um að lifa áfram í hjörtum samlanda minna,“ sagði Woody Allen eitt sinn, „ég vil lifa áfram í íbúðinni minni“. Hnyttileg skrýtla, vissulega, og tónninn er dæmigerður fyrir leikstjórann sem fyrst varð frægur fyrir gamanmyndir. Í framhaldinu skipti Allen reyndar um stefnu, og það kann að gleymast hversu róttæk breytingin var, á sínum tíma vissulega en væri það enn. Það að fara úr uppistandi í gamanmyndir er eðlileg þróun, og það var einmitt á áttunda áratugnum sem sjónvarpsþátturinn Saturday Night Live varð til sem áfangaheimili fyrir slíkt stökk, en að taka skref þaðan í gerð háalvarlegra kvikmynda um tilvistarangist nútímans, og flækjustigið í samskiptum kynjanna, og nefna Ingmar Bergman sem þinn helsta áhrifavald, var það ekki. Mikið vatn hefur hins vegar runnið til sjávar síðan Allen lét orðin falla sem ég vitnaði í hérna í upphafi og alllangt er síðan Allen gat hætt að hafa áhyggjur af því að „lifa áfram í hjörtum samlanda sinna“.

Flestir þekkja málið sem umfram annað hefur mótað ímynd leikstjórans síðasta aldarfjórðung. Árið 1992 var Woody Allen tilkynntur til lögreglu fyrir að hafa misnotað sjö ára fósturdóttur hans og Miu Farrow, Dylan, en skilnaður þeirra stóð þá yfir. Ástæðan fyrir skilnaðinum var að Farrow hafði komist að því að Allen átti í ástarsambandi við aðra fósturdóttur þeirra, þá tvítuga Soon-Yi Previn. Kæra var aldrei gefin út og að hætti ríkjandi viðhorfa hafði umstangið ekki nema takmörkuð áhrif á hróður leikstjórans.

Fyrir fjórum árum komst málið hins vegar aftur í hámæli og tilefnið var tímaritsgrein eftir son Woody Allen og Miu Farrow, og bróður Dylan auðvitað, Ronan Farrow. Greinin birtist í Hollywood Reporter sama dag og nýjasta mynd Allens opnaði kvikmyndahátíðina í Cannes, en það var engin tilviljun. Ronan gagnrýnir harðlega hversu viljugur kvikmyndaiðnaðurinn sé til að líta framhjá ásökunum um kynferðisbrot, og hversu fælnir fjölmiðlar hafi verið við að fjalla um mál systur hans. Tíðarandinn er samt að breytast segir hann, „straumhvörf eru að eiga sér stað allt í kringum okkur þegar að meðferð kynferðisbrota kemur.“ Ári síðar fengu straumhvörfin sem Ronan nefndi þarna nafnið #metoo-hreyfingin.

Woody Allen slapp heldur ekki við brimskaflinn. Amazon gerði við hann fjögurra mynda samning árið 2016 en afþakkaði svo tveimur árum síðar fyrstu myndina sem frá honum kom, og sleit samningnum í kjölfarið. Fjöldi leikara sem komið hafa fram í myndum Woody Allen hafa beðist afsökunar og lýst yfir að slíkt kæmi ekki til greina í dag. Þá hefur Ronan Farrow, sem hlaut Pulitzer-verðlaunin árið 2018 fyrir að fletta ofan af Harvey Weinstein, gætt þess að nafn Allen gleymist ekki í umræðunni. Eini góði brandarinn í nýútgefinni sjálfsævisögu Allen er því titillinn, Apropos of nothing, eða Af engu tilefni. Þar er um hans sjöttu bók að ræða en fyrstu ævisögu.

Þegar Allen tók sér stöðu meðal virtustu kvikmyndagerðarmanna heims var það gert í krafti þess sem kalla má hugrænt hrifmagn. Hann sagði brandara um Chekov og Finnegan's Wake; deilur sem Alvy Singer, persónan sem Allen leikur í Annie Hall, lendir í um kenningar Marshall McLuhans enda til dæmis á því að McLuhan sjálfur í gestahlutverki er kvaddur til að skera úr um hvor hafi rétt fyrir sér. Allen gekk sem sagt út frá því að áhorfendur og gagnrýnendur vissu hver Chekov og McLuhan voru, vissu hvaða bók Finnegan's Wake var. Með því að höfða þannig til hégóma menntaðra áhorfenda sópaðist menningarauðmagn til hans eins og skaflar að sveitakirkju í snjóbyl.

Þrjátíu ár hafa hins vegar liðið síðan Woody Allen gerði síðast verulega góða kvikmynd og tuttugu síðan hann gerði áhorfanlega mynd. Í krafti velgengni hans á nýju árþúsundi með myndum eins og Vicky Christina Barcelona, Match Point og Midnight in Paris er óhætt að kalla hann oflofaðasta leikstjóra veraldar.

Löngu kulnuð hrifning á Allen er því ekki ástæða þess að ég nældi mér í ævisöguna heldur hitt að ég hef lengi burðast með fullyrðingu í farteskinu sem dreymir um að verða tilgáta sem hægt sé að færa rök fyrir. Tilgátan er sú að Allen sé andstyggilegur dónakall, karlremba, ósæmilegur að öllu leyti og siðlaus – og til að fella slíkan dóm þurfi ekki að vísa til ásökunar Dylan. Enginn er jafn fljótur að vísa til þess að Allen hafi aldrei verið sakfelldur og sá sem vill bera blak af honum. Þar sem aldrei verður skorið úr því máli finnst mér skilvirkast að taka þá sorgarsögu út fyrir sviga, til að byrja með í öllu falli.

Tvennt liggur fyrir áður en lesturinn hefst. Höfundarverk Allens á hvíta tjaldinu birtir verulega truflandi áhuga fullorðins karlmanns á afar ungum konum, stundum táningum. Þá liggur sömuleiðis fyrir að áhugi Allens á ungum stúlkum var ekki stíltæki, einhver einkennilegur staður í hugarheimum hans sem einvörðungu raungerðist í handritaskrifum – ekki að manni hafi nokkurn tíma dottið það í hug – um það vitnar reynsla hinnar sautján ára Muriel Hemingway við tökur á Manhattan, þar sem leikstjórinn lét hana ekki í friði, sem og ástarsambandið við fyrirsætuna Babi Christina Engelhardt, sem hófst þegar hún var sextán en varði í átta ár. Allen var á fimmtugsaldri í báðum tilvikum.

Það var að hluta til þessi skrítni þráður í myndum Allens sem gerði að verkum að ég hætti að geta horft á þær. Aldursmunur er náttúrlega bensínið sem knýr allar kvikmyndir sem frá Hollywood koma, og þar af leiðandi afsakast kannski hvað maður var lengi að taka eftir þessari hneigð hjá Allen, sem auðvitað hélt áfram að eldast og manna sjálfur í hlutverk mótleikkvenna sinna en að því kom að ástandið í myndum hans var orðið absúrd.

Svo er það hneykslismálið frá tíunda áratugnum. Hér vísa ég ekki til Dylan heldur þess að Woody Allen hóf ástarsamband við fósturdóttur sína Soon-Yi Previn meðan hún var táningur. Lykilorðið hér er fósturdóttir, og kannski táningur líka. Að einhverju leyti grófst þetta kannski undir glæpsamlegri ásökunum en er auðvitað ekki eðlilegt á neinn hátt. Það er þarna sem Pótemkin-tjöldin féllu og afhjúpuðu ámátlegan ljótleika hins heimsfræga spaugara. Og ef ævisögunni nýju var ætlað að verja mannorð Allens þá hlýtur ritun bókarinnar að teljast ein versta hugmynd og stórslys menningarsögu tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Sé mannorð Allens hins vegar ekki beint hagsmunamál lesandans er ekki annað hægt en að vera þakklátur þeim hugrænu ferlum sem saman verptu þessari hugmynd inn í vitund leikstjórans og drifu hann áfram allt þar til óleikurinn í eigin garð var fullframkvæmdur.

Allt sem þú taldir þig vita um kvikmyndaleikstjórann en gast engan spurt er staðfest. Á bak við svörtu gleraugun er ekki verið að hugsa um Chekov eða Finnegan's Wake, þar þrífst einhver brenglun í garð kvenna sem gerir Woody Allen ófæran um að hugsa um konur og tjá sig um konur án þess birtast sem andstyggilegur dónakall. Það er bókstaflega með ólíkindum að sjá hvernig hann fjallar um þær mörgu leikkonur sem í myndum hans hafa verið og í framhaldinu hvernig hann gortar sig af hjásvæfum sínum gegnum tíðina. Raunar er ævisagan jafn ólæsileg og myndir Allens hafa lengi verið óáhorfanlegar, svo illa skrifuð og samhengislaus frá upphafi að fljótt horfir til stórkostlegra vandræða og útúrdúrarnir, eitt helsta einkenni frásagnarinnar, byrja strax og lýkur iðulega á að Allen er týndur í eigin texta, búinn að gleyma hvert útúrdúrinn átti að fara og í hvaða átt meginmálið er. Það er ljóst að Allen getur ekki beðið eftir að komast að skilnaðinum við Miu Farrow, og hefur kastað algjörlega til höndum við fyrri hlutann. Síðari hlutinn, þar sem honum verður að ósk sinni, er síðan svo hrikalegur að Allen í eitt skipti fyrir öll staðfestir að hann er botnfiskur, ekkert nema lágkúra. Stundum gengur hann jafnvel lengra en það, stundum getur hann að því er virðist ekki stöðvað sjálfan sig og flaggar siðblindufánanum. Hér er einn slíkur kafli:

 „[Mia] hafði hálfgerða óbeit á því að ala krakkana upp og passaði í raun ekkert upp á þá,“ segir Allen. „Það er ekki að undra að börnin tvö sem voru ættleidd skyldu fremja sjálfsmorð. Þriðja íhugaði það. Þá yfirgaf Mia yndislega dóttur sem glímdi við HIV þannig að hún dó alein á spítala á jóladag.“

Það er á svona stöðum sem sést á bakvið Pótemkin-tjöldin, og tilgátan mín varð auðvitað þakklát. Þetta er held ég einn óhugnanlegasti kafli sem ég hef lesið í bók um langt skeið. Hvaða maður talar svona um börn sem hann tók þátt í að ala upp? Hvers konar maður smjattar af ánægju yfir hörmulegri frásögn eins og þessari vegna þess að í firringu sinni virðist hann halda að hann sé að koma höggi á barnsmóður sína?

Jú, það er Woody Allen og deginum ljósara að hann er ekkert fyndinn lengur.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Allen segist vera fyrirmyndarpiltur #metoo

Mannlíf

Diane Keaton kemur Woody Allen til varnar

Norður Ameríka

Harmar að hafa unnið með Woody Allen

Kvikmyndir

Á að hreinsa listheiminn af hinu óæskilega?