„Það var ekki í boði að hætta“

Mynd:  / 

„Það var ekki í boði að hætta“

03.07.2020 - 10:07

Höfundar

Eliza Reid segir að það hafi aldrei leikið neinn vafi á því að þau Guðni Th. Jóhannesson myndu búa á Íslandi fremur en í Kanada. Guðni átti dóttur úr fyrra hjónabandi á Íslandi og hann vildi búa nálægt henni. „Við vildum vera saman, svo það var á Íslandi.“

„Ég var samt ekki alveg tilbúin að ákveða að dvelja alla ævi á Íslandi, ég var 27 ára gömul og fannst þetta langt í framtíðinni, en við vildum vera hér að minnsta kosti í 10-15 ár meðan Rut, dóttir hans, var að alast upp,“ segir Eliza í útvarpsþættinum Nýjar raddir, nýjum útvarpsþætti á dagskrá Rásar 2 á laugardagsmorgnum þar sem Alexander Elliott tekur á móti Íslendingum af erlendum uppruna. Eliza og Guðni kynntust í London þar sem þau voru við nám fyrir næstum 20 árum. „Ég held það hafi hjálpað þegar við fluttum til Íslands 2003 að ég kom með það í huga að ég væri ekki að prófa, ég var komin til að vera. Ég held að þetta viðhorf hafi hjálpað mér að komast í gegnum fyrstu veturna þegar allt var dimmt. Það var ekki í boði að hætta.“

Eliza segir að það hafi aldrei verið áhöld um að hún vildi læra tungumálið. „Ég var með geisladisk í Bretlandi að læra aðeins. Ég var löngu hætt að treysta Guðna því hann var alltaf að reyna að stríða mér, með því að segja rangt orð þegar ég spurði. Á geisladisknum voru mjög praktískir frasar eins og „Hvar er ströndin?“ og „Hvar er lestarstöðin?“ sem maður notar auðvitað mikið á Íslandi,“ segir hún sposk. Eliza segist hafa verið heppin að það var eitt pláss eftir í íslensku fyrir útlendinga hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands þegar hún flutti hingað í ágúst 2003. „Ég byrjaði hálfum mánuði eftir að ég fluttist til landsins og það hjálpaði mjög mikið. Það er frekar auðvelt að búa hér án þess að tala stakt orð í íslensku, ef maður talar ensku. En maður kemst aldrei almennilega inn í samfélagið án þess að tala tungumálið.“ Hún er mjög þakklát fyrir að hafa byrjað að læra strax því það sé auðvelt að fresta því og erfitt að byrja.

„Ég hef alltaf verið mjög hamingjusöm og ánægð með að vera á Íslandi,“ segir Eliza en því fylgdu vissulega áskoranir. Hún segist hafa verið heppin að finna starf við sitt hæfi stuttu eftir að hún kom til landsins. Það var henni mikilvægt að finna starf upp á eigin spýtur, ekki í gegnum klíku eða tengsl eiginmannsins. „Ég vildi bara lesa auglýsingar í blöðunum og finna starf sjálf. Það tókst og ég byrjaði að vinna. En eftir ár var mér sagt upp, þetta var bara lítið fyrirtæki. Það fannst mér erfiðir tímar þegar ég þurfti að leita mér að atvinnu. En þetta endaði allt vel, eins og svo margt.“

Nýjar raddir eru á dagskrá Rásar 2 klukkan átta á laugardagsmorgnum í júlí og ágúst. Þar fær Alexander Elliott til sín gesti með fjölbreyttan bakgrunn sem eiga það sameiginlegt að hafa flutt til Íslands frá öðrum löndum.

Tengdar fréttir

Tónlist

Forsetahjónin dönsuðu með Daða í kvöld

Innlent

Mikilvægt að vera ekki bara þekkt sem kona einhvers

Bókmenntir

Elizu dreymir um giftingu í ritlistarbúðum

Menningarefni

Fór í jakka úr Rauða kross-búðinni á Edduna