Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Það borgar sig að hlusta þegar fagfólk tjáir sig

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Með því að leggja læknaráð- og hjúkrunarráð Landspítala niður fellur niður vettvangur fyrir fagfólk innan spítalans til að koma ábendingum og gagnrýni á framfæri. Þetta segir Anna Margrét Halldórsdóttir, formaður læknaráðs Landspítala. Lagabreyting sem samþykkt var á lokadögum Alþingis kveður á um að ráðin verði lögð niður.

Anna Margrét var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Þar sagði hún að samkvæmt lagabreytingunni kæmi sameiginlegt fagráð heilbrigðisstarfsfólks, sem forstjóri viðkomandi heilbrigðisstofnunar skipar, í staðinn fyrir lækna- og hjúkrunarráð. Læknaráð hefði verið starfrækt við Landpítalanna í áratugi og gegndi þar margvíslegum hlutverkum, meðal annars faglegu aðhaldi fyrir forstjórann.

„Auk þess hefur læknaráð líka haft annars konar hlutverk, hefur haft hlutverk við ráðningar sérfræðilækna og líka rekið öflugt fræðslustarf á spítalanum. Þannig að læknaráð hefur haft býsna umfangsmikið hlutverk síðustu áratugi. Þetta nýja frumvarp sem var lagt fram í haust  var ekki ánægjuefni fyrir okkur og við mótmæltum þessum breytingum á frumvarpinu í haust og svo aftur núna í janúar,“ sagði Anna Margrét.

 

Hún sagði að læknaráði þætti þessi breyting miður. Bæði læknar og hjúkrunarfræðingar væru fjölmennar framlínustéttir. Hingað tl hefur verið kosið í læknaráð af öllum sviðum spítalans, en fagráðið verður skipað beint af forstjóra. 

„Þannig að það er eðlismunur á þessu tvennu. Annars vegar ertu með tiltölulega sjálfstætt læknaráð sem ályktar um læknisfræðileg mál og veitir forstjóra ráðgjöf,“ sagði Anna Margrét.

Mikilvægt fyrir forstjóra að fá ráðgjöf fagfólks

Hún benti á að þó að núverandi forstjóri Landpítala væri læknir, þá gæti vel verið að næsti forstjóri yrði með annars konar menntun.  „Þetta getur verið aðili með viðskiptafræðilegan eða rekstrarbakgrunn . Í slíkum tilvikum væri mikilvægt að aðili hefði aðgang að ráðgjöf fagfólks. Stundum hafa læknar spítalans tjáð sig opinberlega um eitthvað sem þeim likar ekki. Það borgar sig að hlusta á  þegar fagfólk tjáir sig. Ég held að það sé  ölum til hagsbóta, bæðu forstjóra, heilbrigðisráðherra og öðrum að leggja við hlustir,“ sagði Anna Margrét í Morgunútvarpi Rásar 2.

 

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir