Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Saga íslenskrar bókaútgáfu alltaf verið saga peninga“

Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson / RÚV

„Saga íslenskrar bókaútgáfu alltaf verið saga peninga“

03.07.2020 - 16:07

Höfundar

Óttarr Proppé bóksali vonar að kaup stórfyrirtækisins Storytel á meirihluta í Forlaginu verði til góðs. „Þarna er komið fyrirtæki inn í bransann sem vill fjárfesta í íslenskum bókmenntum, það eru tíðindi, það er ekki beinlínis eins og það hafi verið biðröð af fjármagni að reyna að komast inn í íslenska bókaútgáfu.“

Þau stórtíðindi urðu á miðvikudag að tilkynnt var um sölu á 70% hlut bókaútgáfunnar Forlagsins til sænska hljóð- og rafbókafyrirtækisins Storytel. Salan kom rithöfundum og áhugafólki um íslenska bókaútgáfu í opna skjöldu og eru margir uggandi um áhrifin sem viðskiptin gætu haft á bókmenningu landsins. Ragnheiður Tryggvadóttir framkvæmdastjóri RSÍ, Óttarr Proppé bóksali og Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur ræddu málið í pallborði í Tengivagninum á Rás 1.

Ragnheiður segir að Storytel AB sé einfaldlega fyrirtæki á markaði, sem stýrist af gróðasjónarmiðum en ekki metnaði fyrir útgáfu gæðabókmennta. „Ég hef persónulega reynslu af því sjálf af viðtali við framkvæmdastjóra þessa fyrirtækis sem sagði: „Bókmenntir? Já nei, við notum það orð nú eiginlega ekki hér.“ Þannig að það var nú ekki beint efnilegt. Það er mjög erfitt að trúa því að fyrirtæki á markaði sem hefur sitt aðalmarkmið að græða peninga að það hafi ekki áhrif á útgáfustefnu Forlagsins. Þó að það séu allir í því núna að segja okkur að það muni ekkert breytast, starfsfólkið verði áfram það sama og þetta verði áfram rekið sem íslenskt útgáfufélag. Ég á mjög erfitt með að trúa því að eftir 2-4 ár verði ekki orðinn þrýstingur á að breyta útgáfustefnunni.“

Ragnheiður Tryggvadóttir framkvæmdastjóri RSÍ.
 Mynd: RSÍ
Ragnheiður Tryggvadóttir framkvæmdastjóri RSÍ efast um að Storytel beri hag íslenskrar bókmenningar fyrir brjósti.

Óttarr Proppé er aftur á móti bjartsýnni og leyfir sér að vona að breytingarnar geti orðið til góðs.  „Sem bóksali þá held ég að endanum hljóti bækur að vera gefnar út og dreifast til þess að einhver lesi þær. Saga íslenskrar bókaútgáfu hefur alltaf verið saga peninga. Það kostar að prenta bók og lesa hana yfir og svo framvegis. Síðan að Ragnar í Smára niðurgreiddi útgáfuna sína með peningum sem hann græddi annars staðar höfum við alltaf verið í þessari baráttu að reyna að ná einhverju núlli og komast að því hvað lesendur vilja lesa,“ segir Óttar.

 „Ég velti því fyrir mér hvort að við þurfum ekki aðeins að hugsa að þarna er komið fyrirtæki inn í bransann sem vill fjárfesta í íslenskum bókmenntum, það eru tíðindi, það er ekki beinlínis eins og það hafi verið biðröð af fjármagni að reyna að komast inn í íslenska bókaútgáfu. Einhvern veginn finnst manni ekki ólíklegt að þeir hljóti að horfa til þess að vilja gefa eitthvað út sem fólk vill lesa. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að vera ekkert of svartsýnn á það að þessi breyting verði svo ofsalega vond - því útgáfustefna hlýtur að vera í einhverju samhengi við lesendahópinn.“ Óttarr segir að reynsla hans af svona breytingum sé að þær geti verið jákvæðar fyrir litla útgefendur vegna þess að þær hristi upp í stöðunni eins og hún er.

Ragnheiður efast hins vegar um að Storytel AB beri hag íslenskra bókmennta fyrir brjósti. „Við höfum átt því láni að fagna að útgefendur eru með okkur í liði í því að efla íslenska bókmenningu. Þá er ég að tala um það að það sé ákveðin skylda til að gefa út fjölbreytt efni sem ekki endilega er gróðavon af, þá gefurðu frekar út eitthvað annað til að borga það niður. Við þekkjum nú bara dæmi af Bjarti hér um árið sem var svo heppið að ná í Harry Potter og Dan Brown og gat í kjölfarið gefið út stafla af bókum sem ekki voru að seljast í meira en 700-800 eintökum. Ég er ekki viss um að Storytel AB beri þennan hag mjög fyrir brjósti.“

Ragnheiður segist ekki vilja flytja dómsdagsspá um að allir höfundar yfirgefi Forlagið en hún segir að margir höfundar muni hugsa sinn gang næstu daga. „Það er mjög eðlilegt því þetta er stór breyting, að 70% af stærsta bókaforlagi landsins skuli vera í erlendri eigu.“ Hún segir að það sé verið að byggja upp viðskiptaveldi sem hafi það ekki að meginmarkmiði að gefa út bækur – heldur græða. „Eins og lögfræðingur norska rithöfundasambandsins sagði: Það er ekki spurning, Storytel er mjög gott bissniss-módel fyrir bissniss-menn en ömurlegt bissniss-módel fyrir höfunda. Bara svo það sé sagt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Tjarnarbíó - RÚV
Eiríkur Örn Norðdahl hefur áhyggjur af því að áhersla á afþreyingarbókmenntir beri fagurbókmenntir ofurliði.

Eiríkur Örn er á þeirri skoðun að kaup Storytel AB á hlut í Forlaginu séu merki um slæma þróun. Viðbrögð hans við tíðindunum litast þó af fjarlægð frá reykvískum bókabransa. „Ég upplifi uppnámið svoldið mikið eins og það sé að leysast upp ákveðið reykvískt furstadæmi. Kannski finn ég ekki fyrir þessu uppnámi einfaldlega vegna þess að ég hef aldrei verið í því, bara sem einhver landsbyggðarlúði,“ segir hann og bætir við að viðskiptin séu hluti af áratugalangri þróun. „Auðvitað er þetta sama samþjöppun valds og auðæfa sem hefur verið að eiga sér stað síðustu hálfa öldina að minnsta kosti.“ Honum líst illa á tilfærslu valdsins til Svíþjóðar, þannig að ekki verði hægt að mæta „peningakörlunum“ í kokteilboðum yggldur á brún. „Saga og þróun Storytel sýnir það að þeir hafa miklu meiri áhuga á afþreyingarbókmenntum, auðvitað vilja þeir auka lestur og auka veg bókarinnar, en það er fyrst og fremst afþreyingin og ekki fagurbókmenntirnar. Það veldur manni svolitlum ugg.“

Hægt er að hlusta á pallborðsumræðurnar í heild sinni hér:

Mynd: Samsett / Samsett

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Segir sölu Forlagsins hafa komið öllum í opna skjöldu

Bókmenntir

Kaup Storytel þýða stóraukna rafvæðingu bóka

Bókmenntir

Storytel með tögl og hagldir í íslenskum bókabransa

Bókmenntir

Forlagið selur Storytel AB 70% hlut