Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Rúmlega 28 milljóna fjárstyrkur vegna snjóflóða

Mynd með færslu
Frá vettvangi snjóflóðsins sem féll á Flateyri í janúar síðastliðnum. Mynd: Steinunn Guðný Einarsdóttir - Aðsendar myndir
Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi sínum í morgun, að tillögu forsætisráðherra, að veita Ísafjarðarbæ og stofnunum fjárstyrk úr almennum varasjóði til að mæta útgjöldum vegna viðbragða og framkvæmda í kjölfar snjóflóðsins á Flateyri í janúar.

Styrkurinn nemur samtals 28,2 milljónum og skiptist á milli Ísfjarðarbæjar sem fær 25 milljónir króna, Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra sem fær 1,9 milljónir og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem fær 1,3 milljónir.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að í kjölfar snjóflóðsins á Flateyri hafi starfshópur á vegum forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra verið skipaður og skilaði hann tillögum að 15 aðgerðum í byrjun mars til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri við Önundarfjörð.

Unnið að stöðumati

Ein af aðgerðunum miðar að því að koma til móts við þann kostnað sem til féll vegna snjóflóðsins. Í apríl var verkefnisstjórn skipuð til að fylgja eftir tillögunum 15 og er nú unnið að gerð stöðumats. „Samráðshópur ráðuneytisstjóra um viðbrögð við náttúruhamförum fór heildrænt yfir kostnað sem tengja má neyðaraðgerðum á hamfarasvæðinu og naut þar stuðnings verkefnisstjórnar um framkvæmd og eftirfylgni aðgerða á Flateyri,“ segir í tilkynningunni.