Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hélt að íslenski fáninn væri færeyskur

03.07.2020 - 14:54
Erlent · Danmörk · Færeyjar · Evrópa
Mynd: TV 2 / TV 2
Aðeins einn af þremur sem voru beðnir að teikna færeyska fánann í fréttaþætti á TV2 í Danmörku gat teiknað hann rétt. Einn þeirra hélt að íslenski fáninn væri sá færeyski.

Ástæða þess að fréttamaður TV 2 ákvað að prófa kunnáttu viðmælenda sinna er sú að færeyski þingmaðurinn Sjúrður Skaale vakti athygli á að færeyska fánanum var flaggað í Danmörku á kolröngum degi, þriðja árið í röð. Fánanum átti að flagga í tilefni af Ólafsvöku, þjóðhátíð Færeyinga. Hann var hins vegar dreginn að húni 29. júní, en Ólafsvaka er ekki fyrr en 29. júlí. 

Sjúrður sagði á Facebook-síðu sinni að þetta væri bæði pínlegt og sýndi virðingarleysi gagnvart Færeyingum. Málið vakti mikla athygli í dönskum fjölmiðlum. Sjúrður var í viðtali í fréttaþættinum NEWS & Co á miðvikudag. Þáttastjórnandinn ákvað að leiða inn í það viðtal með því að biðja þrjá sérfræðinga í setti að teikna færeyska fánann. Öll þrjú fengu hvítt blað, rauðan og bláan tússpenna. 

Teiknaði réttan fána í annarri tilraun

Fyrstur til þess að sýna afraksturinn var Henrik Drusebjerg, aðalhagfræðingur Danske Bank. Hann teiknaði íslenska fánann, og virtist ekki sérstaklega viss um að hafa teiknað réttan fána. Næstur var Steen M. Andersen, forstjóri FCG Global Coals, sem hafði teiknað fána sem minnir á þann skoska.  Þá var komið að Søs Marie Serup, stjórnmálaskýranda. Hún hafði teiknað tvo fána og hafði hann réttan í annarri tilraun.

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV