Frummat Fiskeldis Austfjarða ósammála áhættumati Hafró

03.07.2020 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fiskeldi Austfjarða stefnir á 7000 tonna laxeldi í Stöðvarfirði og er umhverfismat komið í kynningu. Samkvæmt áhættumati Hafró þarf fiskurinn að vera ófjór en fyrirtækið áskilur sér rétt til að alla frjóan fisk verði áhættumatið rýmkað síðar. Í frummatskýrslu fyrirtækisins vegna umhverfisáhrifa er fullyrt að villtum laxastofnum myndi ekki stafa veruleg hætta af frjóum eldislaxi í firðinum.

Fiskeldi takmarkast af tveimur þáttum, annars vegar burðarþoli sem lýtur að losun á lífrænum efnum og á meðal annars að tryggja að fiskeldi hrifsi ekki of mikið súrefni úr fjörðum. Hins vegar takmarkast eldið af áhættu af erfðablöndun við villtan lax. Hafró mat það svo að Stöðvarfjörður bæri 7.000 tonna eldi en vegna nálægðar við Breiðdalsá er í nýjasta áhættumati ekki leyft að ala þar frjóan fisk.

Umhverfismatið miðar við frjóan fisk

Fiskeldi Austfjarða hefur augastað á firðinum og er frummatsskýrsla umhverfismats á sjö þúsund tonna eldi komin í kynningu. Þar segir að í samræmi við áhættumat HAFRÓ muni fyrirtækið einungis ala þar ófrjóan lax. Verði hins vegar ákveðið að rýmka áhættumatið við næstu endurskoðun áskilji Fiskeldi Austfjarða sér rétt til að ala frjóan fisk. Því er umhverfismatið miðað við áhrif af eldi á sjö þúsund tonnum af frjóum fiski.

Athygli vekur að niðurstaða frummatsskýrslu fyrirtækisins vegna mats á umhverfisáhrifum er ekki samhljóma áhættumati Hafró. Áhættumat erfðablöndunar segir engan frjóan fisk í Stöðvarfjörð en í frummatsskýrslu fyrirtækisins segir að áhrif vegna mögulegra slysasleppinga séu óveruleg og afturkræf í heildina. Til að strokulaxar hafi varanlegar erfðabreytingar för með sér, segir í frummatsskýrslunni, er nauðsynlegt að stöðugt, í áraraðir, berist nýtt erfðaefni frá kynþroska eldislöxum í villtan lax. Laxar séu undir sterku vali og því megi búast við að eiginleikar sem draga úr hæfni laxins veljist hratt burt. Áætlaður fjöldi strokulaxa sem leitar í laxveiðiár, bendi ekki til að framkvæmdin skapi verulega hættu eða muni skaða villta laxastofna með erfðablöndun. Fyrirbyggjandi aðgerðir, staðsetning eldissvæðis og lítil hæfni eldislaxa til að fjölga sér og búa til harðgerð afkvæmi geri það að verkum að litlar líkur séu á að framkvæmdin skaði villta laxastofna með erfðablöndun.

Athugasemdir við þetta frummat þurfa að berast Skipulagsstofnun eigi síðar en 18. ágúst.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi