Ferðamaður með virkt smit ― kom í gær frá Vín

03.07.2020 - 15:37
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ferðamaður sem kom til landsins í gær greindist með virkt smit eftir mótefnamælingu. Hann kom með flugi frá Vín í Austurríki en er frá Albaníu. Hann var einn á ferðalagi og fylgdi fyrirmælum yfirvalda við komuna til landsins um að halda fjarlægð; því er smitrakning í kringum hann einföld. Smitrakningateymið hefur óskað eftir því að fá upplýsingar frá flugfélaginu um þá sem sátu í kringum hann sem þurfa að fara í sóttkví. Ferðamaðurinn er í einangrun í sóttvarnarhúsinu við Rauðarárstíg.

Tvö smit í Norrænu

Lögreglan á Austurlandi segir að farþegi sem kom um borð í Norrænu í Hirtshals í Danmörku hafi fengið þau tíðindi á leiðinni að hann væri smitaður af COVID; í kjölfar skimunar sem hann hafði farið í áður. Hann var því einangraður í klefanum sínum alla leiðina. Hann er búsettur á Íslandi og fór því til síns heima í einangrun við komuna til Seyðisfjarðar.

Ríflega 400 fóru í sýnatöku í Norrænu í gær. Einn greindist með smit, í fyrsta sinn í Norrænu síðan skimun hófst á landamærunum. Sá er í einangrun þar á meðan kannað er hvort það er nýtt eða gamalt. 

Í tilkynningu segir lögreglan að íbúar í fjórðungnum séu uggandi yfir þeim fjölda farþega sem flæðir inn í fjórðunginn vikulega en áréttir að allir fái viðeigandi leiðbeiningar um hvernig skuli haga sér áður en niðurstöður úr skimun liggja fyrir.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi