Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fámennt á hajj hátíðinni í Mekka í ár

03.07.2020 - 17:40
epa08503385 (FILE) - Muslim pilgrims circle around the Kaaba at the Masjidil Haram, Islam's holiest site during the Hajj pilgrimage in Mecca, Saudi Arabia, 13 August 2019. According to Saudi authorities, this year's hajj will not be cancelled, but that due to the coronavirus only 'very limited numbers' of people will be allowed to perform the major Muslim pilgrimage. The kingdom said on 23 June 2020 that only people of various nationalities already residing in the country would be allowed to perform the hajj.  EPA-EFE/STR
Tvær og hálf milljón pílagríma tók þátt í hajj hátíðinni í Mekka í fyrra. Mynd: EPA-EFE - EPA
Einungis eitt þúsund pílagrímar fá að vera viðstaddir á hajj hátíðinni í Mekka í ár. Yfir tvö hundruð þúsund kórónuveirusmit hafa verið greind í Sádi Arabíu. Landið hefur orðið verst úti allra við Persaflóann af völdum veirunnar.

Heilbrigðisyfirvöld í Riyadh greindu frá því í dag að staðfest smit væru orðin tæplega 202 þúsund, þar af rúmlega fjögur þúsund í dag. Farsóttin hefur dregið um átján hundruð til dauða.

Sádi-Arabar hafa orðið að grípa til margvíslegra aðgerða eins og aðrar þjóðir til að draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar. Sem dæmi má nefna að einungis eitt þúsund pílagrímar mega vera viðstaddir á hajj hátíðinni síðar í þessum mánuði. Í fyrra voru þeir tvær og hálf milljónir alls staðar að úr heiminum.

Strangar kröfur verða gerðar í ár. Pílagrímarnir verða að vera yngri en 65 ára. Þeir mega ekki vera haldnir neinum undirliggjandi sjúkdómum og verða skimaðir fyrir veirunni við komuna til Mekka. Eftir að þeir hafa tekið þátt í trúarhátíðinni verða þeir að fara í sóttkví heima hjá sér.

Sádi-Arabar slökuðu nokkuð í maí á viðbúnaði til að stöðva útbreiðslu veirunnar. Eftir það fjölgaði smitum og dauðsföllum af völdum COVID-19. Landið er enn að mestu leyti lokað. Allt farþegaflug frá útlöndum er til dæmis bannað.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV