Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enginn að leika sér að því að veikjast eða smita aðra

03.07.2020 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Tíu fóru í sóttkví eftir að smit kom upp hjá notenda Geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja í gær. Forstöðumaðurinn segir að það sé áfall. Rögnvaldur Ólafsson hjá Almannavörnum gagnrýnir að smitaðir fái upphringingar með skömmum. Enginn leiki sér að því að smitast og allir hafi fylgt leiðbeiningum. „Þetta er hlutur sem við viljum ekki sjá og leiðinlegt að sjá að fólk sé að fá þetta ofan það að vera að eiga við veikindi,“ segir Rögnvaldur.

Átta notendur og tveir starfsmenn í sóttkví

Þrettán eru með virkt smit á landinu. Tveir greindust við landamærin í gær og þrír innanlands eins og greint hefur verið frá. Einn þeirra sem smitaðist í gær sækir Björgina, geðræktarmiðstöð Suðurnesja. „Þetta eru tíu einstaklingar í heildina sem þurfa að fara í sóttkví. Tveir starfsmenn og átta notendur,“ segir Díana Hilmarsdóttir er forstöðumaður þar.

Björginni hefur verið lokað fram yfir helgi vegna sótthreinsunar og eftir það verður opnunartími skertur. Díana segir að notendahópurinn í Björginni sé viðkvæmur. „Bæði andlega og margir hverjir veilir fyrir til heilsunnar. Við þurfum að gæta ítrustu varúðar. Í ljósi þess að þegar COVID stóð sem hæst þurftum við að loka um nokkurra vikna skeið. Þannig að sjálfsögðu er þetta áfall,“ segir Díana.

Dæmi um að smitaðir fái upphringingar með skömmum

Rögnvaldur Ólafsson deildarstjóri hjá Almannavörnum segir að rakning í kringum nýju smitin klárist í dag en ekki er búist við að margir bætist við í sóttkví. Einhverjir finna til einkenna en enginn er á sjúkrahúsi. „Við höfum verið að fá ábendingar um að fólk sem er í einangrun hafi verið að verða fyrir ónæði. Fá símhringingar og skilaboð frá fólki sem finnur sig knúið til að skamma fólk. Við erum ekki hrifin af því, það er enginn að leika sér að því að veikjast og hvað þá að smita aðra. Allir hafa verið að fylgja þeim leiðbeiningum sem hafa verið í gildi og jafnvel umfram það.“

Möguleiki að farþegar fari yfir tvö þúsund í dag

Í gær voru 1780 skimaðir við landamærin. Í dag koma sautján flugvélar til Keflavíkur. „Það er það mesta sem hefur komið í langan tíma. Það er möguleiki á að farþegar fari yfir tvö þúsund farþega. Það var búið að láta okkur vita af því að það gæti gerst. Við erum búin að gera ráðstafanir þannig það á að sleppa í dag. Við gátum bætt aðeins í getuna til að greina sýni.“ Ein þeirra kemur frá Færeyjum en fólk þaðan þarf ekki að fara í skimun. 

Fylgjast með þróun mótefnamyndunar í Eyjum

Mótefnamæling þeirra sem smitast hafa af COVID-19 í Vestmannaeyjum verður endurtekin á morgun. Rúmir tveir mánuðir eru síðan síðasta mæling var gerð. Davíð Egilsson svæðislæknir sóttvarna þar segir að þau boði rúmlega 100 manns í mælinguna. „Þetta er framhald af mótefnamælingum sem voru gerðar í vor. Íslensk erfðagreining hafði samband og nú vilja þeir fá aftur þá sem voru með staðfest smit. Þau eru að fylgjast með þróun mótefnamyndunar hjá þessum einstaklingum; sjá hvernig staðan er núna þegar það er lengra liðið frá smiti,“ segir Davíð.