Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dettifossvegur tilbúinn í lok sumars

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í lok sumars verður í fyrsta sinn hægt að aka á bundnu slitlagi frá Dettifossi um Jökulsárgljúfur niður í Öxarfjörð. Þá opnast svokallaður Demantshringur, langþráð hringleið að mörgum helstu náttúruperlum Norðausturlands.

Langur vetur og frost í jörðu varð til þess að vinna við Dettifossveg í ár, hófst seinna en áætlað var, eða í byrjun júní. Framkvæmdir eru nú í fullum gangi og tuttugu manna vinnuflokkur hefur lokið við að byggja upp veginn alla leið. 

Stefnt að því að hefja klæðningu í lok júlí

„Við kláruðum fyllingarnar síðastliðið haust. Þar einmitt fengum við góða tíð. Núna er aftur á móti mikil vinna eftir í styrktarlögum og burðarlögum og vonandi getum við farið að hefja klæðningu svona í lok júlí,“ segir Hjálmar Guðmundsson, verkstjóri hjá G. Hjálmarsson, verktakanum við vegagerðina.

Bundið slitlag frá Mývatnsöræfum niður í Öxarfjörð

Dettifossvegur er langþráð samgöngubót, ekki síst hjá ferðaþjónustunni. Þá opnast „Demantshringurinn“, hringleið þar sem skoða má margar helstu náttúruperlur á Norðausturlandi. Framkvæmdum við veginn hefur margoft verið frestað, en nú á að ljúka verkinu að fullu. Þá verður hægt að keyra á bundnu slitlagi frá Mývatnsöræfum, fram hjá Dettifossi og niður í Öxarfjörð.

Tvær nýjar leiðir í Vesturdal og Hólmatungur

„Við ætlum okkur að reyna að vera búnir að ljúka við klæðningar á Dettifossveginn sjálfan, niður í Vesturdal og Hljóðakletta og upp að Langavatnshöfða,“ segir Hjálmar. Vegurinn í Vesturdal að Hljóðaklettum sem Hjálmar nefnir er önnur tveggja leiða sem lagðar verða út frá aðalveginum. Hin leiðin er vegur niður í Hólmatungur. „Og vonandi getum við byrjað á honum í haust, en það fer bara allt eftir tíð og tíma.“

Ferðamenn ánægðir með vegagerðina

Ferðamenn sem eru að skoða Jökulsárgljúfur og Dettifoss kippa sér ekki upp við þessar framkvæmdir og Hjálmar segir þá ekkert tefja fyrir. „Nei nei, þeir eru allir mjög brosmildir og maður fær bara mikið þakklæti og mikið bros.“