Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Bretar neita að afhenda Maduro gull Venesúela

03.07.2020 - 05:55
epa00573710 (FILE) The undated picture shows gold bars in the safe of the German Federal Bank in Frankfurt Main, Germany. Designated Federal Finance Minister Peer Steinbrueck (SPD) plans to mobilise a part of the holdings of gold. Steinbrueck stated on
 Mynd: EPA - DPA
Breskur dómstóll hafnaði í gær kröfu Nicolas Maduro, forseta Venesúela, um yfirráð yfir gullforða ríkisins sem geymdur er í enska seðlabankanum. Breska stjórnin hefur ótvírætt gefið það að hún telji stjórnarandstæðinginn Juan Guaido réttmætan forseta Venesúela, og Maduro geti því ekki fengið forðann.

Gullið er metið á um milljarð bandaríkjadala, jafnvirði um 140 milljarða króna. Seðlabankinn í Venesúela bað um að fá forðann sendan til landsins til þess að fjármagna aðgerðir gegn kórónuveirufaraldrinum í landinu. Stjórn seðlabankans var skipuð af stjórn Maduros, en stjórnarandstaðan hafði einnig skipað stjórn um bankann. Bankastjórn stjórnarandstöðunnar lýsti andstöðu sinni við að gullforðinn yrði sendur til Venesúela. 

Tefur aðgerðir í Venesúela

Lögmaður seðlabankans í Venesúela sagði umbjóðanda sinn ætla að áfrýja dómnum. Hann sagði úrskurðinn tefja aðgerðir til aðstoðar fólki í Venesúela. Stjórn Maduros sé með fulla stjórn á málefnum þjóðarinnar, og aðeins hún geti tryggt útdeilingu mannúðaraðstoðar og lyfja sem þarf til að kljást við kórónuveirufaraldurinn.

Djúp efnahagsleg og pólitísk kreppa hefur verið undanfarin ár í Venesúela. Þetta áður eitt ríkasta land Suður-Ameríku er nú á heljarþröm, og stjórn Maduros stendur verulega höllum fæti. Um 60 ríki, flest þeirra vestræn, styðja Guaido sem réttmætan forseta landsins, eftir umdeildar forsetakosningar síðla árs 2018. Stjórnarandstaðan er með meirihluta á þjóðþingi Venesúela, en Maduro skipaði nýtt stjórnlagaþing, sem hann segir nú fara með löggjafarvaldið í landinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV