
Bandarískur yfirlæknir: „Við ættum öll að vera hrædd“
COVID-19 faraldurinnn virðist nær stjórnlaus í Bandaríkjunum, þar sem kórónuveirusmitum fjölgar enn á ógnarhraða. Þriðja daginn í röð féll met í fjölda smita. Í gær greindust ríflega 52.000 með sjúkdóminn, samkvæmt samantekt Johns Hopkins. Fyrir aðeins tveimur vikum voru að greinast um tuttugu þúsund smit á dag.
Eins og sjötta stigs fellibylur
Ástandið er nú hvað verst í Suður- og Vesturríkjum Bandaríkjanna. Tilfellum fer áfram fækkandi í New York og New Jersey, þar sem veiran var hvað skæðust í upphafi faraldursins vestanhafs. Faraldurinn er í hröðum vexti í Suður-Karólínu. Stan Wilson, yfirlæknir í Charleston sem er stærstu borg ríkisins, líkir ástandinu þar við stórhættulegan fellibyl. „Ef við erum ekki öll hrædd, ættum við að vera það,“ segir hann. Ástandið sé eins og sjötta stigs fellibylur sem ekki er hægt að flýja. „Við getum ekki flúið, við þurfum að halda kyrru fyrir og halda okkur fjarri öðru fólki. Það er afar mikilvægt að allir átti sig á því hversu alvarlegt ástandið er,“ segir Wilson. Ástandið er það ógnvægilegt að Wilson segist aldrei áður á sínum fjörutíu ára ferli hafa verið jafn hræddur.
There is a rise in Coronavirus cases because our testing is so massive and so good, far bigger and better than any other country. This is great news, but even better news is that death, and the death rate, is DOWN. Also, younger people, who get better much easier and faster!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 3, 2020
Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um ástandið á Twitter. Í færslunni segir að tilfellum fjölgi vegna þess að hversu umfangsmikil skimunin fyrir veirunni er. Hún sé meiri og betri í Bandaríkjunum en öllum öðrum löndum.