Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áhyggjur af kaupum Storytel á Forlaginu

Mynd með færslu
 Mynd: Brian Smithson - Flickr
Rithöfundasamband Íslands telur ástæðu til að hafa áhyggjur af fákeppni í bókaútgáfu eftir kaup Storytel AB á sjötíu prósenta hlut í Forlaginu, stærstu bókaútgáfu landsins. Rithöfundar og bókaútgefendur hafa lýst yfir áhyggjum af samningnum um kaupin og hélt Rithöfundasambandið fund um málið í morgun.

Karl Ágúst Úlfsson, formaður Rithöfundasambands Íslands, segir í samtali við fréttastofu að hin mikla markaðsráðandi staða hvors fyrirtækis um sig geti sett rithöfunda í erfiða samningsstöðu.

Forlagið heldur sjálfstæði sínu

Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Forlagsins, telur ekkert geti dregið betur úr áhyggjum rithöfunda til lengdar en öflugt starf Forlagsins. Mikilvægt sé að fram komi að Storytel muni ekki greiða ritlaun rithöfunda Forlagsins. Það muni Forlagið sjálft gera áfram eftir samningum Félags bókaútgefenda og Rithöfundasambandsins.

Halldór segir að Forlagið muni halda sjálfstæði sínu, gefa út bækur á íslensku og verða áfram stjórnað af hérlendu starfsfólki. Það séu ekki eigendur forlaga sem ákveði hvað gefið sé út heldur ritstjórar og útgefendur. Mál og menning eigi áfram 30% í Forlaginu og samningar um áframhaldandi rekstur Forlagsins séu skýrir.

Áhyggjur af menningararfinum

Fulltrúi lítils bókaútgefanda sem ekki vill láta nafns síns getið óttast að rekstrarumhverfið eigi eftir að verða enn erfiðara eftir samrunann. Sömuleiðis nefndi hann nokkrar áhyggjur af örlögum menningararfs undanfarinnar aldar og nefndi rit Gunnars Gunnarssonar, Halldórs Laxness og annarra stórskálda í því samhengi.

Halldór Guðmundsson segir margar gamlar bækur sem hafa verið ófáanlegar lengi núna öðlast framhaldslíf sem hljóðbækur. Útgáfa sé bundin tungumálum, og öflug íslensk bókaútgáfa styrki íslenska tungu.

Bókaútgefandinn segir samruna við erlent stórfyrirtæki geta leitt til minni fjölbreytni og erfiðara verði að gefa út bækur sem ekki skili hagnaði. Þar á meðal megi nefna fræðibækur sem séu nauðsynlegar til að viðhalda tungumálinu, blómlegum bókmenntum og fræðaumhverfi á Íslandi.

Norsteds forlagið sænska, sem Storytel AB keypti fyrir nokkrum árum, hefur verið rekið áfram sem sjálfstætt fyrirtæki og að sögn Halldórs styrkst og dafnað, ekki síst á hljóðbókasviði. Hann segir marga höfunda forlagsins hafa unað hag sínum vel. Halldór segir sömu sögu að segja af finnska forlaginu Gumerus.

Vaxtarbroddur í stafrænni útgáfu

Samninga, sem Storytel á Íslandi hafi gert við íslenska bókaútgefendur undanfarið, segir fulltrúi bókaútgefandans hafa verið mjög óhagstæða bókaútgefendum og höfundum.

Halldór segist hafa fullan skilning á óróa rithöfunda. Hann segir mikilvægt að hafa í huga að Storytel, nýr aðaleigandi Forlagsins, sé sérhæfður í stafrænni útgáfu bóka þar sem vaxtarbroddur bókaútgáfu hafi verið undanfarin ár.

Samningur Storytel við Forlagið er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.