500 manna fjöldatakmörk framlengd til 26. júlí

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV fréttir
Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið, að tillögu sóttvarnalæknis, að framlengja takmörkun á samkomum um þrjár vikur, þ.e. til 26. júlí. Fjöldatakmörk á samkomum miðast því áfram við 500 manns. Opnunartími spilasala og veitingastaða með vínveitingaleyfi verður einnig óbreyttur og verður áfram heimilt að hafa opið til 23.00 á kvöldin. 

Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins, en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti þessa ákvörðun á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Einnig stendur til að efla upplýsingagjöf til almennings um einstaklingsbundnar sýkingavarnir.

Skimað verði í tvígang eftir 13. júlí

Heilbrigðisráðherra hefur þá fallist á tillögur sóttvarnalæknis um breytingar á reglum um skimun á landamærunum vegna kórónuveirunnar og er gert ráð fyrir að þær komi til framkvæmda ekki síðar en 13. júlí.

Breytingin snýr eingöngu að íslenskum ríkisborgurum og þeim sem eru búsettir hér á landi. Líkt og fram kom í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi Almannavarna á miðvikudag er gert ráð fyrir að einstaklingar úr fyrrnefndum hópi sem velja skimun þurfi að fara aftur í skimun 4 – 5 dögum eftir komuna til landsins og vera í sóttkví þar til niðurstaða seinni sýnatökunnar liggur fyrir.

Sem fyrr verður hægt að velja á milli 14 daga sóttkvíar eða skimunar á landamærum.

Sóttvarnalæknir hefur sagt um ákveðið bakslag að ræða. Það hafi þó ekki verið óviðbúið, en að lágmarka þurfi áhættuna á því að faraldurinn nái sér á strik hér á landi.

Frá því að skimanir hófust á landamærum 15. júní síðastliðinn hafi um 22.000 ferðamenn komið til landsins og sýni verið tekin hjá um 16.000 manns. Þar af hafa virk smit greinst hjá sjö einstaklingum og rúmlega 400 manns hafa þurft að fara í sóttkví eftir smitrakningu. Enginn er þó alvarlega veikur.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi