Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

44 þúsund komin með stafrænt ökuskírteini

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
44 þúsund manns eru nú komin með stafrænt ökuskírteini að sögn Vigdísar Jóhannsdóttur, markaðsstjóra Stafræns Íslands sem heldur úti vefnum Ísland.is.

Mikil ásókn var í stafrænu skírteinin þegar opnað var fyrir umsóknir á miðvikudag og lá vefurinn niðri hluta dags vegna álags.

Um 2.200 manns reyndu að sækja skírteinið á hverri sekúndu er mest var.

Vigdís segir enn vera mikla ásókn í skírteinin. „Fólk er spennt fyrir þessu,“ segir hún og bendir á að Íslendingar séu enda nýjungagjarnir.

Álagið nú er þó viðráðanlegt og starfsfólk hefur í dag verið mest í því að veita almenna aðstoð og afgreiða gömul villuskilaboð.

Þeir sem enn eru með ökuskírteini útgefin fyrir árið 1998 þurfa að snúa sér til sýslumanns til að fá nýtt skírteini.

Gamla, bleika, plasthúðaða, útprentaða skírteinið sem gildir til sjötugs veitir ekki aðgang að stafrænu skírteini. Ástæðan er sú að myndin í þeim er ekki í stafrænum gagnagrunni.