Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir hundrað kólumbískir hermenn reknir fyrir barnaníð

epa04706298 Colombian Army soldiers guard the area where an alleged FARC guerrilla attack on 14 April left 11 people dead, in Timba, Colombia, 15 April 2015. Colombian President Juan Manuel Santos on 15 April revived airstrikes on rebels of the
 Mynd: EPA - EFE
Yfir hundrað hermenn í kólumbíska hernum eru til rannsóknar vegna gruns um að þeir hafi beitt börn kynferðislegu ofbeldi. Fjörutíu og fimm hafa þegar verið reknir, en 73 til viðbótar eru til rannsóknar af ríkissaksóknara í Kólumbíu, að sögn herforingjans Eduardo Zapateiro.

Sjö hermenn voru handteknir í síðustu viku vegna gruns um að þeir hafi nauðgað stúlku af ættum frumbyggja. Þeir voru allir reknir úr hernum, ásamt þremur yfirmönnum þeirra. Tveir enn æðri stjórnendur voru færðir til í starfi. Um helgina bárust svo fregnir af því að nokkrir hermenn hafi beitt unga stúlku kynferðisofbeldi á bækistöð í frumskóginum í Guaviare-héraði. Þar var henni haldið í nokkra daga án þess að fá vott né þurrt, að sögn Guardian.

Zapateiro neitar því að reynt hafi verið að kveða kerfisbundið niður ásakanir um kynferðisofbeldi hermanna gegn börnum. Hann sagði slíkt ekki fá að viðgangast undir sinni stjórn, og þeir sem gerist sekir um slíkt fái ekki annað tækifæri í hernum. Herforinginn greindi ekki frá því hversu mörgum málum hermennirnir 118 tengdust, og ræddi ekki um ásakanir um kynferðislega áreitni í garð kvenna í hernum síðustu mánuði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV