Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vilja refsitolla á íslenskan kísilmálm

02.07.2020 - 07:03
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Tvö bandarísk fyrirtæki hafa skorað á þarlend stjórnvöld að setja hömlur á innflutning kísilmálms frá þremur ríkjum í Evrópu og tveimur í Asíu. Ísland er þar á meðal.

Forsvarsmenn bandarísku fyrirtækjanna Globe Specialty Metals og Mississippi Silicon segja að fyrirtæki í löndunum fimm hafi selt afurðir sínar á undirverði í Bandaríkjunum, allt að 54-85 prósentum undir því sem gæti talist eðlilegt. Því hafi bandarísku fyrirtækin þurft að keppa við niðurgreidda framleiðslu frá öðrum löndum síðastliðin þrjú ár. Löndin eru auk Íslands, Bosnía og Svartfjallaland, Malasía og Kasakstan.

Fyrst var greint frá umleitan bandarísku fyrirtækjanna í Fréttablaðinu. Þar var haft eftir Rúnari Sigurpálssyni, framkvæmdastjóra kísilmálmbræðslu PCC á Bakka, að hann gæti lítið tjáð sig um aðgerðir bandarísku fyrirtækjanna, hann bíði viðbragða frá yfirstjórn PCC í Þýskalandi. Fjórðungurinn af framleiðslu PCC á Bakka er seldur beint til Bandaríkjanna.

Í fréttatilkynningu frá bandarísku fyrirtækjunum í fyrradag segir að þau hafi skorað á bandaríska viðskiparáðuneytið og alþjóðaviðskiptastofnun Bandaríkjanna að koma í veg fyrir undirboð fyrirtækja frá löndunum fimm. Það vilja þau að verði gert með tollum á framleiðsluna. Í fréttatilkynningunni kemur fram að niðurstaða bandarískra yfirvalda liggi fyrir í síðasta lagi 14. ágúst.

Þrjú fyrirtæki hafa framleitt kísilmálm hérlendis. Þau eru United Silicon í Helguvík sem hætti framleiðslu 2017 vegna mengunar og varð gjaldþrota skömmu síðar. PCC á Bakka við Húsavík sem tilkynnti í síðustu viku að starfsemin á Bakka yrði stöðvuð og stórum hluta starfsfólks sagt upp. Þriðja fyrirtækið er Elkem á Grundartanga.

Leiðrétt kl. 10.05. Elkem vantaði í upptalningu kísilfyrirtækja á Íslandi í upphaflegri gerð fréttarinnar.