Þegar maður leggur mikið á sig uppsker maður á móti

Mynd: Ivana Anna Nikolic / Ivana Anna Nikolic

Þegar maður leggur mikið á sig uppsker maður á móti

02.07.2020 - 14:35
Ivana Anna Nikolic útskrifaðist úr lögfræði í Háskóla Íslands um síðustu helgi með 9,5 í einkunn, hæstu meðaleinkunn á meistaraprófi í sögu lagadeildarinnar. Hún segir lykilatriði að hafa áhuga á því sem maður sé að læra en það verði líka að vinna vel, jafnt og þétt yfir önnina. Ivana ræddi árangurinn í Morgunútvarpinu á Rás 2 í vikunni.

Ivana er af serbneskum uppruna, foreldrar hennar fluttu til Íslands rétt áður en hún fæddist en móðir hennar spilaði hér fótbolta bæði með Þrótti á Neskaupstað og Breiðabliki. „Pabbi fylgdi bara með, þeim fannst síðan svo gott að búa hér og þau ákváðu að setjast að,“ segir Ivana. Hún segir fólk hafa mikið verið að tala um árangurinn í ljósi uppruna hennar en hún hafði ekki leitt hugann að því sjálf. „Ég skil alveg að fólk sé að pæla í því samt. Þetta er auðvitað íslenskumiðað og þungt nám, laganámið, en ég hef auðvitað gengið í gegnum allt íslenska skólakerfið,“ bætir hún við

Hún segist ekki endilega vera með neitt töfraráð til að ná svona árangri en þetta klassíska, það að vinna vel og vera duglegur yfir önnina, sé mikilvægt. Þá sé lykilatriði að hafa áhuga á því sem maður sé að læra. Sjálf tók hún fjölbreytta áfanga í meistaranáminu, stjórnsýslurétt, mannréttindi og fjármunarétt, svo dæmi séu tekin, en sérhæfði sig ekki beint í neinu til þess að halda öllu opnu. Lokaritgerðin fjallaði svo um mannréttindi en Ivana rannsakaði læknamistök í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu og hvort og hvernig íslenska réttarkerfið uppfylli þær skyldur sem hvíli á ríkinu í tengslum við það. 

Ivana var líka hæst í BA prófinu í lögfræðinni þegar hún kláraði það en hún segist alltaf hafa verið dugleg og lagt mikið á sig. "Ég finn að þegar maður leggur mikið á sig þá uppsker maður á móti." Hún hefur undanfarið starfað hjá Umboðsmanni Alþingis, bæði sem laganemi og nú lögfræðingur. Stefnan er að halda þar áfram eitthvað og reyna að slaka aðeins á áður en hún fer mögulega í meira nám. 

Ivana var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2, viðtalið í heild sinni má hlusta á í spilaranum hér fyrir ofan.