Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Telur að innlimun Vesturbakkans hefði alvarleg áhrif

02.07.2020 - 14:45
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis. - Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Fjórir þingmenn í utanríkismálanefnd Alþingis hafa hvatt ríkisstjórnina til að mótmæla því að Ísrael innlimi Vesturbakkann. Til stóð að Ísraelar myndu hefja innlimunina í gær, 1. júlí. Varnarmálaráðherra landsins, Benny Gantz, lýsti því yfir í vikunni að því yrði frestað og að baráttan við kórónuveiruna yrði að vera í forgangi.

Fjórir þingmenn í utanríkismálanefnd Alþingis, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður nefndarinnar, Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknar, Logi Ein­ars­son, þing­maður og formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og Smári McCart­hy, þing­maður Pírata, sendu á dögunum frá sér yfirlýsingu þar sem þau hvetja Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands til að beita sér fyrir friðsamlegri lausn á deilu Ísraela og Palestínumanna.

Sjá einnig: Johnson biður Ísraela að hætta við innlimun

„Ég held að ef af innlimun verður, líkt og boðað hefur verið, þá muni það hafa gríðarlega alvarleg áhrif, bæði á samskipti Ísraela og Palestínumanna og sömuleiðis á stöðu alþjóðamála, hvort sem það er fyrir botni Miðjarðarhafs eða bara á alþjóðasviðinu,“ segir Rósa Björk. Hún kveðst telja að hætta á vopnuðum átökum eigi eftir að aukast til muna. Þá verði friðarsamkomulag Ísraela og Jórdana í uppnámi. „Ég held að þetta myndi valda gríðarlega miklum átökum og spennu á svæðinu sem að er í raun og veru algjör óþarfi.“ 

Vesturbakkinn hefur verið undir hernámi Ísraela síðan í sex daga stríðinu árið 1967. Ísraelar hafa byggt landtökubyggðir á svæðinu, oft við palestínskar borgir. Þúsundir Palestínumanna söfnuðust saman á Gaza í gær og mótmæltu yfirvofandi innlimun Ísraela.

Sjá einnig: Fréttaskýringar RÚV um Ísrael og Palestínu

Stjórnvöld í Bandaríkjunum styðja áform Ísraela og eru aðgerðirnar hluti af friðaráætlun þeirra á svæðinu. Rósa segir að íslensk stjórnvöld ættu einnig að reyna að hafa áhrif á þá stefnu. „Algjörlega og eins og fram hefur komið þá hafa ísraelsk stjórnvöld verið með þessa fyrirætlan í samráði og með stuðningi bandarísku ríkisstjórnarinnar, þannig að það þarf að sjálfsögðu að beina líka yfirlýsingum og orðum sínum til Bandaríkjastjórnar hvað varðar þessa fyrirætlan Ísraelsstjórnar. Það þarf að koma þeirri skoðun skýrt á framfæri við Bandaríkjastjórn.“ 

Rósa Björk segir afstöðu Íslands skipta máli. „Við höfum sýnt það á alþjóðavettvangi að þó að við séum lítið ríki að þá höfum við haft gríðarleg áhrif, eins og til að mynda með setu okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Við vorum fyrsta Vestræna ríkið sem lýstum yfir stuðningi við Palestínuríki sem fullvalda og sjálfstætt ríki með samhljóða ályktun hér á alþingi 2011. Þannig að við höfum sannarlega látið okkur málefni Palestínumanna varða.“